Grasmóavist

L10.4 Grasmóavist

Eunis-flokkun: Nýr flokkur, tillaga. E1.2617 Icelandic Empetrum Thymus grasslands.

Lýsing

Grasríkt, slétt til þýft mólendi vaxið krækilyngi, blóðbergi, grösum og fleiri mólendistegundum, oft í talsverðum halla. Víða sér í grjót á yfirborði. Land er vel gróið, gróður fremur lágvaxinn, æðplöntur ríkjandi, mosi allmikill og fléttur nokkrar.

Plöntur

Vistgerðin er mjög rík af tegundum, einkanlega æðplöntum. Hún er fremur rík af mosum en miðlungi rík af fléttum. Ríkjandi tegundir æðplantna eru krækilyng (Empetrum nigrum), blóðberg (Thymus praecox subsp. arcticus), blávingull
(Festuca vivipara), hálíngresi (Agrostis capillaris), bláberjalyng (Vaccinium uliginosum) og túnvingull (­Festuca rubra subsp. richardsonii). Algengastir mosa eru tildurmosi (Hylocomium splendens), engjaskraut (Rhytidiadelphus squarrosus), runnaskraut (Rhytidia­delphus triquetrus), móasigð (Sanionia uncinata) og hraungambri (Racomitrium lanuginosum) en algengustu fléttur eru torfubikar
(Cladonia ­pocillum), vax­targa (Lecanora polytropa) og himnu­skóf (Peltigera membranacea).

Jarðvegur

Áfoksjörð er ráðandi jarðvegsgerð. Jarðvegur er þurr, miðlungs þykkur og miðlungi ríkur af kolefni. Sýrustig er í meðallagi.

Fuglar

Fremur rýrt fuglalíf, algengustu varpfuglar eru þúfutittlingur (Anthus pratensis), spói (Numenius phaeopus), heiðlóa (Pluvialis apricaria), hrossagaukur (Gallinago gallinago) og lóuþræll (Calidris alpina).

Líkar vistgerðir

Stinnastararvist.

Útbreiðsla

Finnst á láglendi og til heiða um allt land, einkum í hlíðum þar sem búfé gengur til beitar.

Verndargildi

Hátt. Vistgerðin er á lista Bernarsamningsins frá 2014 yfir vistgerðir sem þarfnast verndar.