Grasvíðiskriðuvist

L3.2

Eunis-flokkun

Nýr flokkur, tillaga. H2.12 Icelandic Salix herbacea screes.

Grasvíðiskriðuvist
Mynd: Sigurður H. Magnússon

Grasvíðiskriðuvist í Valbjarnarmúla í Borgarfirði. Talsvert grýtt, hallalítil skriða. Mosinn hraungambri er með mesta þekju en helstu tegundir æðplantna eru krækilyng, ljónslappi og holtasóley. Gróðursnið NV- 58-04. – Salix herbacea scree in western Iceland.

Grasvíðiskriðuvist
Mynd: Sigmar Metúsalemsson

Grasvíðiskriðuvist ofan við Langanes og vestan við Gígjökul á Þórsmerkurleið. Talsvert grýtt skriða. Mosarnir hraungambri og melagambri eru þekjumestir allra tegunda. Helstu tegundir æðplantna eru krækilyng, bláberjalyng, grasvíðir og móasef. Gróðursnið SL-58-01. – Salix herbacea scree in southern Iceland.

Lýsing

Allbrattar, óstöðugar til fremur stöðugar, basalt- og móbergsskriður. Grófleiki yfirborðs mjög misjafn, frá smágrýti upp í allstórgrýttar urðir. Gróður er mjög lágvaxinn og land lítt gróið, gamburmosar eru ríkjandi.

Plöntur

Vistgerðin er miðlungi rík af æðplöntutegundum, frekar snauð af mosum en fremur rík af fléttum. Af æðplöntum er mest af krækilyngi (Empetrum nigrum), holtasóley (Dryas octopetala), ljónslappa (Alchemilla alpina), grasvíði (Salix herbacea) og blóðbergi (Thymus praecox ssp. arcticus). Af mosum eru hraungambri (Racomitrium lanuginosum), holtasóti (Andreaea rupestris), snoðgambri (Racomitrium fasciculare) og melagambri (R. ericoides) algengastir, en af fléttum landfræðiflikra (Rhizocarpon geographicum), hraunbreyskja (Stereocaulon vesuvianum), dvergkarta (Tremolecia atrata) og vaxtarga (Lecanora polytropa).

Jarðvegur

Jarðvegur er fremur þunnur. Klapparjörð er ráðandi, einkum í urðum þar sem grjót er sums staðar eina efnið. Í vistgerðinni koma einnig fyrir melajörð og sandjörð. Kolefnisinnihald jarðvegs er fremur lágt en sýrustig í meðallagi.

Fuglar

Strjált fuglalíf, steindepill (Oenanthe oenanthe), snjótittlingur (Plectrophenax nivalis), heiðlóa. Hrafn (Corvus corax), smyrill (Falco colunbarius) og fálki (Falco rusticolus) í klettum.

Líkar vistgerðir

Ljónslappaskriðuvist og urðarskriðuvist.

Útbreiðsla

Finnst í bröttu fjalllendi í öllum landshlutum.

Verndargildi

Lágt. Vistgerðin er á lista Bernarsamningsins frá 2014 yfir vistgerðir sem þarfnast verndar.

Grasvíðiskriðuvist

Grasvíðiskriðuvist er ekki aðgreind frá öðrum skriðuvistum á korti, en í heild eru þær mjög útbreiddar og finnast í 62% landsreita. Flatarmál þeirra reiknast um 6.300 km2, óvissa er fremur lítil. – The three scree habitat types are not separated on the map. They are as a whole very common in Iceland and found within 62% of all grid squares. Their total area is estimated 6,300 km2.

Gróðurþekja, tegundafjöldi, raki, ríkjandi tegundir og fleiri tölulegar upplýsingar í grasvíðiskriðuvist

Gróðurþekja æðplantna, mosa og fléttna. Sýnd eru meðaltöl fyrir heildarþekju og þekju ±staðalskekkja. Innan sviga er fjöldi mælinga. Grænar súlur sýna spönn allra vistgerða á landi. – Average total % cover of all plant groups (Heild), vascular plants (Æðplöntur), bryophytes (Mosar) and lichens (Fléttur), shown with lines and numbers ± s.e., n within brackets; bars indicate range for all habitat types.

Tegundafjöldi á sniðum. Sýnd eru meðaltöl fyrir fjölda tegunda æðplanta, mosa og fléttna ±staðalskekkja (lóðrétt strik). Innan sviga er fjöldi mælinga. Grænar súlur sýna spönn fyrir allar vistgerðir. – Average species richness of vascular plants, bryophytes and lichens, shown with lines and numbers ± s.e., n within brackets; bars indicate range for all habitat types.

Raki í jarðvegi. Sýnd er tíðni rakaflokka; forblautt, blautt, deigt og þurrt. Innan sviga er fjöldi mælinga. – Soil moisture classes %, n within brackets; classes are Very wet (Forblautt), Wet (Blautt), Moist (Deigt) and Dry (Þurrt).

Ríkjandi tegundir og tegundahópar í vistgerðinni. Sýnd er þekja og röð. – Order and % cover of dominant species.

Ýmsar niðurstöður: Gróðurhæð (Gh); Jarðvegsþykkt (Jþ); Kolefni í jarðvegi (C%); Sýrustig í jarðvegi (pH); Halli lands (H); Grýtniþekja (Gr). Sýnd eru meðaltöl ±staðalskekkja (lóðrétt strik). Innan sviga er fjöldi mælinga. Skyggðar súlur sýna spönn viðkomandi breytu fyrir allar vistgerðir. – Various results: Average vegetation height (Gh) and soil depth (Jþ), soil carbon (C%) and pH, land slope (H) and surface rocks (Gr) shown with lines and numbers ± s.e., n within brackets; bars indicate range for all habitat types.

Opna í kortasjá