Gulstararfitjavist

L7.6 Gulstararfitjavist

Eunis-flokkun: Nýr flokkur, tillaga. A2.531G1 Icelandic Carex lyngbyei salt meadows.

Lýsing

Slétt flæðilönd við sjó vaxin gulstör og fleiri votlendistegundum, við árósa og stórstraumsmörk og ofar, fyrir botnum flóa og fjarða þar sem áhrifa sjávarfalla og saltvatns gætir. Mjög gróskumikið land, æðplöntur eru ríkjandi, mosar finnast í nokkrum mæli en mjög lítið er um fléttur.

Plöntur

Vistgerðin er miðlungsrík af æðplöntutegundum, en fátæk af mosum og einkum þó af fléttum. Ríkjandi æðplöntur eru gulstör (Carex lyngbyei), mýrastör (C. nigra) og skriðstör (C. mackenziei) sem er bundin við sjávarfitjar. Algengastir af mosum eru engjaskraut (Rhytidiadelphus squarrosus), móasigð (Sanionia uncinata) og geirmosi (Calliergonella cuspidata) en af fléttum finnst helst engjaskóf (Peltigera canina).

Jarðvegur

Mjög þykkur, lífræn jörð, fremur rík af kolefni, sýrustig er mjög lágt.

Fuglar

Ríkulegt fuglalíf, mikilvægt fæðuöflunarsvæði fyrir andfugla og vaðfugla. Helstu varpfuglar eru óðinshani (Phalaropus lobatus), lóuþræll (Calidris alpina), jaðrakan (Limosa limosa) og grágæs (Anser anser).

Líkar vistgerðir

Sjávarfitjungsvist og gulstararflóavist.

Útbreiðsla

Finnst á nokkrum forblautum fitjasvæðum við sjávarlón og árósa, við Faxaflóa, í Önundarfirði, Kaldalóni, Eyjafjarðará, Álftafirði, Hornafirði og við Ölfusárósa.

Verndargildi

Mjög hátt. Vistgerðin er á lista Bernarsamningsins frá 2014 yfir vistgerðir sem þarfnast verndar.

Opna í kortasjá – Open in map viewer

Margt býr í fjörunni – Fjörur eru til umfjöllunar, bæði grýttar fjörur og setfjörur, og sérstaklega er fjallað um leirur. Einnig er fjallað um gulstararfitjavist sem tilheyrir strandlendi (sýnt í Landanum á RÚV 28.10.2018).