Hástaraflóavist

Hástaraflóavist

Tall sedge fen

EUNIS-flokkun

D4.1 Rich fens, including eutrophic tall-herb fens and calcareous flushes and soaks.

Lýsing

Algrónir (meðalþekja ~97%), flatir til lítið eitt hallandi, smáþýfðir flóar með allhávöxnum, gróskumiklum votlendisgróðri. Land er fremur einsleitt; forblaut flóasvæði milli lágra rima. Sums staðar eru tjarnir eða pollar. Hávaxnar starir, tjarnastör og gulstör setja mikinn svip á vistgerðina og gefa henni gróskulegt yfirbragð. Þekja háplantna og mosa er mikil. Barnamosar (Sphagnum spp.) eru sums staðar áberandi í þúfum. Háplöntuflóra er fremur fábreytt. Fléttur finnast varla en mosaflóra er talsvert tegundarík.

Jarðvegur

Þykk lífræn jörð með háu kolefnismagni (C% 11,41±1,84%; n=7) og lágu sýrustigi (pH 6,13±0,14; n=7). 

Plöntur

Ríkjandi háplöntutegundir eru hengistör og hálmgresi en aðrar mjög áberandi tegundir, sem sums staðar hafa mikla þekju, eru grávíðir, mýrastör, tjarnastör, engjarós og gulstör. Algengar mosategundir eru margar og eru þær helstu; Aulacomnium palustre, Calliergon giganteum, Cephaloziella hampeana, Plagiomnium ellipticum, Sanionia uncinata, Scapania irrigua, Sphagnum teres, Straminergon stramineum og Tomentypnum nitens. Engin fléttutegund getur talist mjög algeng í vistgerðinni.

Fuglar

Fjölbreytileiki fuglalífs í hástaraflóum er nokkur og fundust þar átta tegundir mófugla og níu aðrar tegundir fugla. Þéttleiki er allhár (27,9 pör/km²) og eru lóuþræll, óðinshani, þúfutittlingur og heiðlóa algengustu tegundirnar. Andfuglar eru áberandi, einkum heiðagæsir, en grafönd, hávella, skúfönd og duggönd fundust þar líka í nokkrum mæli.

Smádýr

Margar tvívængjutegundir eru algengar; mókryppa (Megaselia sordida), ýmsar tegundir af húsfluguætt (Muscidae) og kálfluguætt (Anthomyiidae), svo sem Spilogona alpica, S. opaca, S. megastoma, S. micans og Zaphne frontata, fjallabredda (Rhamphomyia hirtula) og fenjasilmý (Limonia macrostigma) sem er sjaldgæft á landsvísu. Mykjuflugan Scathophaga furcata og taðflugurnar Borborillus fumipennis og Themira arctica eru algengar þar sem gæsabeit er viðvarandi. Bjöllufánan er einsleit, aðeins mýruxi (Atheta graminicola) algengur. Sníkjuvespan Aclastus gracilis er algeng og vorflugan tjarnahulstra (Limnephilus picturatus) í tjörnum. Af köngulóm finnst aðeins ein tegund, mýraló (Erigone psychrophila), sem er afar algeng. Langleggur (Mitopus morio) er algengur.

Líkar vistgerðir

Starungsmýravist og runnamýravist.

Útbreiðsla á rannsóknasvæðum

Hástaraflóavist, sem er fremur lítil að flatarmáli (42 km²), finnst á öllum svæðunum nema við Markarfljót–Emstrur. Hún myndar víðast hvar allstóra, nokkuð samfellda fláka í votlendi. Stærstu svæðin eru á Kili–Guðlaugstungum (15,7 km²), aðallega í Álfgeirstungum, Guðlaugstungum og Svörtutungum, í Þjórsárverum (12,0 km²) þar sem hún myndar stór samfelld svæði í Arnarfellsveri, Illaveri en þó einkum í Oddkelsveri og loks á Vesturöræfum–Brúardölum (6,1 km²), en þar finnst vistgerðin aðallega í Búrfellsflóa og Sauðaflóa.

Verndargildi

Mjög hátt.