Kjarrskógavist
Kjarrskógavist
L11.1
Eunis-flokkun
G1.91711 Boreo-Atlantic crowberry-bog bilberry birch woods.
Kjarrskógavist

Kjarrskógavist í Vatnsfirði á Barðaströnd. Lágvaxið, gisið birkikjarr í fjallshlíð með mólendisgróðri þar sem krækilyng, bláberjalyng, mosinn skógartildri, aðalbláberjalyng og blágresi ríkja. Gróðursnið B14045. – Boreo-Atlantic crowberry-bog bilberry birch wood in western Iceland.

Kjarrskógavist í Aðaldalshrauni. Lágvaxið, gisið birkikjarr á hrauni þar sem mosinn hraungambri ríkir ásamt sortulyngi, beitilyngi, krækilyngi og fléttunum hreindýrakrókum, og kræðufléttum. Gróðursnið B17024. – Boreo-Atlantic crowberry-bog bilberry birch wood in northern Iceland.
Lýsing
Lágvaxnir (hæstu tré >1m), ósamfelldir skógar og kjarr af birki og lynggróðri, á fremur þurru til deigu landi, á hraunum, melum, mýrum, holtum og í skriðurunnum hlíðum. Yfirborð er óslétt og víða nokkuð mishæðótt. Undirgróður er allþéttur, birkikróna gisin, þekja æðplantna er allmikil, mosar áberandi í svarðlagi og lítilsháttar er þar um fléttur. Jarðvegur er fremur grunnur og grjót eða klappir algengar.
Plöntur
Vistgerðin er fremur rík af æðplöntutegundum, fremur fátæk af mosum og miðlungi rík af fléttutegundum. Birki (Betula pubescens) er ríkjandi tegund, en í undirgróðri ber mest á bláberjalyngi (Vaccinium uliginosum), krækilyngi (Empetrum nigrum), beitilyngi (Calluna vulgaris) og sortulyngi (Arctostaphylos uva-ursi). Ríkjandi mosategund í sverði er tildurmosi (Hylocomium splendens) en næstir honum koma hraungambri (Racomitrium lanuginosum), engjaskraut (Rhytidiadelphus squarrosus), runnaskraut (R. triquetrus) og móasigð (Sanionia uncinata). Af fléttum á jörðu finnast helst hreindýrakrókar (Cladonia arbuscula) og hraunbreyskja (Stereocaulon vesuvianum).
Jarðvegur
Áfoksjörð er algengasta jarðvegsgerð, en einnig finnst klapparjörð og á einstaka stað lífræn jörð. Jarðvegsþykkt er í meðallagi og sömuleiðis kolefnismagn og sýrustig.
Fuglar
Ríkulegt fuglalíf, algengustu varpfuglar eru skógarþröstur (Turdus iliacus), þúfutittlingur (Anthus pratensis), hrossagaukur (Gallinago gallinago), rjúpa (Lagopus mutus) og músarrindill (Troglodytes troglodytes).
Líkar vistgerðir
Lyngmóavist á láglendi og lyngskógavist.
Útbreiðsla
Finnst í öllum landshlutum, einkum í útsveitum og ofarlega í skógarhlíðum inn til lands. Einnig á svæðum þar sem birki er að nema land við eldri og vöxtulegri skóga.
Verndargildi
Hátt. Vistgerðin er á lista Bernarsamningsins frá 2014 yfir vistgerðir sem þarfnast verndar.

Kjarrskógavist er ekki aðgreind frá öðrum birkiskógavistum á korti, en í heild eru þær allútbreiddar og finnast í 28% landsreita. Flatarmál þeirra reiknast um 1.500 km2, óvissa er lítil. – The habitat type is on maps not separated from the two related birch woodland types. Together they are rather common in Iceland and found in 28% of grid squares. Their total area is estimated 1,500 km2.

Gróðurþekja æðplantna, mosa og fléttna. Sýnd eru meðaltöl fyrir heildarþekju og þekju ±staðalskekkja. Innan sviga er fjöldi mælinga. Grænar súlur sýna spönn allra vistgerða á landi. – Average total % cover of all plant groups (Heild), vascular plants (Æðplöntur), bryophytes (Mosar) and lichens (Fléttur), shown with lines and numbers ± s.e., n within brackets; bars indicate range for all habitat types.
Tegundafjöldi á sniðum. Sýnd eru meðaltöl fyrir fjölda tegunda æðplanta, mosa og fléttna ±staðalskekkja (lóðrétt strik). Innan sviga er fjöldi mælinga. Grænar súlur sýna spönn fyrir allar vistgerðir. – Average species richness of vascular plants, bryophytes and lichens, shown with lines and numbers ± s.e., n within brackets; bars indicate range for all habitat types.
Raki í jarðvegi. Sýnd er tíðni rakaflokka; forblautt, blautt, deigt og þurrt. Innan sviga er fjöldi mælinga. – Soil moisture classes %, n within brackets; classes are Very wet (Forblautt), Wet (Blautt), Moist (Deigt) and Dry (Þurrt).
Ríkjandi tegundir og tegundahópar í vistgerðinni. Sýnd er þekja og röð. – Order and % cover of dominant species.
Ýmsar niðurstöður: Gróðurhæð (Gh); Jarðvegsþykkt (Jþ); Kolefni í jarðvegi (C%); Sýrustig í jarðvegi (pH); Halli lands (H); Grýtniþekja (Gr). Sýnd eru meðaltöl ±staðalskekkja (lóðrétt strik). Innan sviga er fjöldi mælinga. Skyggðar súlur sýna spönn viðkomandi breytu fyrir allar vistgerðir. – Various results: Average vegetation height (Gh) and soil depth (Jþ), soil carbon (C%) and pH, land slope (H) and surface rocks (Gr) shown with lines and numbers ± s.e., n within brackets; bars indicate range for all habitat types.
Það er ekkert gaman að vera birki í dag – Kjarrskógavist og blómskógavist falla undir skóglendi (sýnt í Landanum á RÚV 11.11.2018).