Lágstaraflóavist

Lágstaraflóavist

Short sedge fen

EUNIS-flokkun

D2.2 Poor fens and soft-water spring mires.

Lýsing

Algróið (meðalþekja ~97%) flatt eða hallalítið mjög mosaríkt votlendi þar sem skiptast á flatir flóar, víða með tjörnum, mýrablettir og deigir rimar. Við tjarnir og í lægðum er dæmigerður flóagróður, klófífa, hengistör, hálmgresi og mýrastör en sums staðar einnig tjarnastör við tjarnir. Á rimum er grávíðir áberandi sem ásamt grasvíði og kornsúru mynda meginuppistöðu í þekju háplantna. Í vistgerðinni eru mosar með mesta þekju. Gróður er fremur lágvaxinn og gróskulítill nema þar sem tjarnastör vex. Mosaflóra er fjölbreytt, háplöntuflóra fremur fábreytt og fléttutegundir fáar.

Jarðvegur

Allþykk lífræn jörð. Kolefnisinnihald er allhátt (C% 8,43±0,96; n=12) en sýrustig mjög lágt (pH=5,97±0,08; n=12).

Plöntur

Ríkjandi háplöntutegundir eru hálmgresi, klófífa, mýrastör, grávíðir og hengistör. Algengustu tegundir mosa eru Sanionia uncinata, Sphagnum teres, Straminergon stramineum, Warnstorfia sarmentosa, Scorpidium revolvens, Oncophorus wahlenbergii, Scapania irrigua, Oncophorus virens, Polytrichum alpinum, Calliergon giganteum og Meesia uliginosa. Engin fléttutegund getur talist algeng í vistgerðinni.

Fuglar

Fuglalíf í lágstaraflóavist er mjög fjölbreytt. Þar fundust alls 25 tegundir varpfugla, þar af níu tegundir mófugla. Þéttleiki mófugla er hár (30,8 pör/km²) og ber þar mest á heiðlóu, lóuþræl og þúfutittlingi. Andfuglar eru einnig mjög áberandi í lágstaraflóavist. Auk álfta og heiðagæsa fundust þar níu tegundir anda: rauðhöfði, urtönd, stokkönd, grafönd, skúfönd, duggönd, straumönd, hávella og gulönd.

Smádýr

Af tvívængjum er mókryppa (Megaselia sordida) algengust. Mykjuflugan Scathophaga furcata og Themira arctica eru einnig mjög algengar. Bjöllufánan er fábreytt, aðeins mýruxi (Atheta graminicola) er mjög algengur en fjallasmiður (Patrobus septentrionis) finnst einnig. Sníkjuvespan Aclastus gracilis er algeng. Af fáum tegundum köngulóa er mýraló (Erigone psychrophila) lang algengust. Langleggur (Mitopus morio) er algengur.

Líkar vistgerðir

Sandmýravist og rústamýravist.

Útbreiðsla á rannsóknasvæðum

Lágstaraflóavist er allstór (113 km²) en nokkuð dreifð vistgerð sem finnst á öllum rannsóknasvæðunum. Hún er einna algengust í votlendi á Kili–Guðlaugstungum (44,8 km²), í Þjórsárverum (23,9 km²) og á Vesturöræfum–Brúardölum (16,6 km²) en á þessum svæðum öllum myndar hún sums staðar nokkuð samfellda fláka. Einna minnst er af lágstaraflóavist á Hofsafrétt og á svæðinu við Markarfljót–Emstrur.

Verndargildi

Mjög hátt.