Laukavötn

Laukavötn

Lýsing

Fjölbreyttur hópur vatna á nokkuð grónu vatnasviði. Brattar hlíðar liggja að mörgum vatnanna. Strandlengjan er iðulega grýtt og gróðurlítil og vatnsstaða getur verið sveiflukennd.

Vatnagróður

Gróðurþekja á mjúkum setbotni er yfirleitt mikil og allmargar tegundir koma fyrir í vötnunum. Í djúpum vötnum nær gróður niður á um 20 m dýpi. Alurt, álftalaukur, tjarnalaukur og vatnalaukur eru einkennandi. Aðrar algengar tegundir eru síkjamari, flagasóley, grasnykra, þráðnykra og langnykra. Kransþörungar koma fyrir.

Botngerð

Grýtt eða malarkennt, misbreitt, fjörubelti er meðfram bökkum. Fyrir utan fjörubeltið tekur við mjúkur setbotn þar sem vatnagróður festir rætur. Grunn svæði, oft með sendnum setbotni, teygja sig sums staðar út frá bökkum og þar vaxa einkennistegundirnar.

Efnafræðilegir þættir

Vötnin eru oftast næringarefnasnauð m.t.t. fosfórs (P), niturs (N) og blaðgrænu.

Miðlunargerð vatnasviðs

Jarðvegsmiðlun á láglendi (3400), jarðvegs- og setmiðlun á hálendi (3200), votlendismiðlun á hálendi (3100). Aðrar miðlunargerðir koma fyrir.

Fuglar

Oftast lítið og fábreytt fuglalíf, helst toppönd (Mergus serrator). Við sum vötn í þessum flokki getur þó verið fuglalíf og þá endur og flórgoði (Podiceps auritus) (t.d. Sandvatn ytra í Mývatnssveit og Elliðavatn).

Útbreiðsla

Yfirleitt á láglendi, í að meðaltali um 150 m h.y.s. Nær einnig til vatna á grónum votlendissvæðum á hálendi.

Verndargildi

Mjög hátt. Vistgerðin er á lista Bernarsamningsins frá 2014 yfir vistgerðir sem þarfnast verndar.

Algengustu tegundir gróðurs – Most common vegetation species %
Síkjamari Myriophyllum alterniflorum 100
Flagasóley Ranunculus reptans 93
Alurt Subularia aquatica 73
Grasnykra Potamogeton gramineus 73
Þráðnykra Stuckenia filiformis 67
Álftalaukur Isoetes echinospora 60
Langnykra Potamogeton praelongus 47
Lónasóley Batrachium eradicatum 47
Tjarnalaukur Littorella uniflora 47
Vatnalaukur Isoetes lacustris 47