Ljónslappaskriðuvist

L3.3

Eunis-flokkun

Nýr flokkur, tillaga. H2.11 Icelandic Alchemilla screes.

Ljónslappaskriðuvist
Mynd: Sigmar Metúsalemsson

Ljónslappaskriðuvist norðvestan í Þríhyrningi í Fljótshlíð. Skriðan er laus, mosagróður er mjög lítill en æðplöntur ráðandi í gróðri. Helstu tegundir eru mosasteinbrjótur, túnvingull, ólafssúra og ljónslappi. Gróðursnið SL-58-03.
– Alchemilla scree in southern Iceland.

Ljónslappaskriðuvist
Mynd: Sigurður H. Magnússon

Ljónslappaskriðuvist í líparítskriðu við Stóra-Kamb á Snæfellsnesi. Gróður er mjög strjáll, en helstu æðplöntutegundir eru blóðberg og bugðupuntur. Gróðursnið SN-58- 01. – Alchemilla scree in western Iceland.

Lýsing

Brattar, mjög óstöðugar en misgrýttar basalt-, móbergs- og líparítskriður. Heildargróðurþekja er mjög lítil og að jafnaði minni en í öðrum skriðuvistgerðum og í vistgerðum almennt. Gróður er mjög lágvaxinn, æðplöntur eru ráðandi en lítið er um mosa og fléttur vegna mikillar hreyfingar undirlags. Gróðurbletti og einhverja grósku er helst að finna á stórgrýti og jarðföstum klettum þar sem hlé er fyrir grjótskriði.

Plöntur

Vistgerðin er miðlungi rík af tegundum æðplantna en fremur fátæk af mosum og fléttum. Af æðplöntum er mest um ljónslappa (Alchemilla alpina), blóðberg (Thymus praecox ssp. arcticus) og túnvingul (Festuca rubra subsp. richardsonii), en af mosum hraungambra (Racomitrium lanuginosum) og melagambra (Racomitrium ericoides). Algengustu fléttur eru landfræðiflikra (Rhizocarpon geographicum), vaxtarga (Lecanora polytropa) og dvergkarta (Tremolecia atrata).

Jarðvegur

Jarðvegur er fremur grunnur, grófur og lítt rakaheldinn. Klapparjörð er ríkjandi en melajörð og sandjörð finnast einnig í litlum mæli. Kolefnisinnihald er mjög lágt en sýrustig fremur hátt.

Fuglar

Strjált fuglalíf, steindepill (Oenanthe oenanthe), snjótittlingur (Plectrophenax nivalis), heiðlóa (Pluvialis apricaria). Hrafn (Corvus corax), smyrill (Falco colunbarius) og fálki (Falco rusticolus) í klettum.

Líkar vistgerðir

Grasvíðiskriðuvist og urðarskriðuvist.

Útbreiðsla

Finnst í bröttu fjalllendi í öllum landshlutum.

Verndargildi

Lágt. Vistgerðin er á lista Bernarsamningsins frá 2014 yfir vistgerðir sem þarfnast verndar.

Ljónslappaskriðuvist

Ljónslappaskriðuvist er ekki aðgreind frá öðrum skriðuvistum á korti, en í heild eru þær mjög útbreiddar og finnast í 62% landsreita. Flatarmál þeirra reiknast um 6.300 km2, óvissa er fremur lítil. – The three scree habitat types are not separated on the map. They are as a whole very common in Iceland and found within 62% of all grid squares. Their total area is estimated 6,300 km2.

Gróðurþekja, tegundafjöldi, raki, ríkjandi tegundir og fleiri tölulegar upplýsingar í ljónslappaskriðuvist

Gróðurþekja æðplantna, mosa og fléttna. Sýnd eru meðaltöl fyrir heildarþekju og þekju ±staðalskekkja. Innan sviga er fjöldi mælinga. Grænar súlur sýna spönn allra vistgerða á landi. – Average total % cover of all plant groups (Heild), vascular plants (Æðplöntur), bryophytes (Mosar) and lichens (Fléttur), shown with lines and numbers ± s.e., n within brackets; bars indicate range for all habitat types.

Tegundafjöldi á sniðum. Sýnd eru meðaltöl fyrir fjölda tegunda æðplanta, mosa og fléttna ±staðalskekkja (lóðrétt strik). Innan sviga er fjöldi mælinga. Grænar súlur sýna spönn fyrir allar vistgerðir. – Average species richness of vascular plants, bryophytes and lichens, shown with lines and numbers ± s.e., n within brackets; bars indicate range for all habitat types.

Raki í jarðvegi. Sýnd er tíðni rakaflokka; forblautt, blautt, deigt og þurrt. Innan sviga er fjöldi mælinga. – Soil moisture classes %, n within brackets; classes are Very wet (Forblautt), Wet (Blautt), Moist (Deigt) and Dry (Þurrt).

Ríkjandi tegundir og tegundahópar í vistgerðinni. Sýnd er þekja og röð. – Order and % cover of dominant species.

Ýmsar niðurstöður: Gróðurhæð (Gh); Jarðvegsþykkt (Jþ); Kolefni í jarðvegi (C%); Sýrustig í jarðvegi (pH); Halli lands (H); Grýtniþekja (Gr). Sýnd eru meðaltöl ±staðalskekkja (lóðrétt strik). Innan sviga er fjöldi mælinga. Skyggðar súlur sýna spönn viðkomandi breytu fyrir allar vistgerðir. – Various results: Average vegetation height (Gh) and soil depth (Jþ), soil carbon (C%) and pH, land slope (H) and surface rocks (Gr) shown with lines and numbers ± s.e., n within brackets; bars indicate range for all habitat types.

Opna í kortasjá