Lyngmóavist

Lyngmóavist

Dwarf scrub heath

EUNIS-flokkun

F2.1 Subarctic and alpine dwarf willow scrub.

Lýsing

Allvel grónir (meðalþekja ~75%), fremur þurrir en á einstaka stað deigir, gróskulitlir lyng- og víðimóar á flötu til nokkuð hallandi landi utan í hæðum og fellum og í fjallshlíðum. Vistgerðin finnst víða ofan við giljamóavist þar sem jarðvegur tekur að þynnast og gróðurþekja minnkar og á mörkum mela og gróins lands. Yfirborð er allvíða rofið með misstórum moldarofum, rofdílum og rofskellum og sums staðar fremur grunnum vatnsrásum. Allvíða eru frostsprungur í jarðvegi. Þekja háplantna og mosa er svipuð (~30%) en fléttuþekja lítil. Þekja lágplöntuskánar er veruleg (meðalþekja 26%) og sums staðar er melagambri (Racomitrium ericoides) áberandi í gróðri. Flóra háplantna og mosa er tegundarík en fjöldi fléttutegunda í meðallagi.

Jarðvegur

Áfoksjörð, en á stöku stað einnig melajörð. Jarðvegur er allþykkur með lágu kolefnisinnihaldi (C% 1,82±0,30; n=6) og allháu sýrustigi (pH 6,53±0,12; n=6).

Plöntur

Ríkjandi háplöntutegundir eru kornsúra, grasvíðir, túnvingull, grávíðir og krækilyng. Algengar mosategundir eru margar og eru þær helstu; Sanionia uncinata, Anthelia juratzkana og Racomitrium ericoides. Af fléttum er Cladonia stricta algengust.

Fuglar

Í úrvinnslu fuglagagna voru gilja- og lyngmóavistir teknar saman. Þetta eru mjög fjölbreyttar vistgerðir með 12 af 13 mófuglategundum auk 10 annarra tegunda. Þéttleiki mófugla er allhár (26,6 pör/km²) og eru heiðlóa (10 pör/km²) og þúfu-tittlingur (7 pör/km²) algengastir. Af öðrum tegundum er heiðagæs mest áberandi. 

Smádýr

Tvívængjufánan er fábreytt. Sveppamýið Exechia frigida er algengasta tegundin. Af bjöllum er gullsmiður (Amara quenseli) ríkjandi, en hélukeppur (Otiorhynchus nodosus), silakeppur (O. arcticus) og víðiglytta (Phratora polaris) einnig nokkuð algengar. Af köngulóm er heiðaló (Erigone tirolensis) algengust og þar á eftir kembuló (Collinsia holmgreni). Langleggur (Mitopus morio) er algengur.

Líkar vistgerðir

Giljamóavist og víðimóavist.

Útbreiðsla á rannsóknasvæðum

Giljamóavist og lyngmóavist voru ekki aðgreindar á vistgerðakortum og því er ekki unnt að meta útbreiðslu þeirra hvorrar fyrir sig. Alls þekja þessar vistgerðir stór svæði (286 km²). Þær eru algengar á öllum rannsóknasvæðunum nema á afréttum Skaftártungu og Síðumanna og við Markarfljót–Emstrur. Stærstu svæðin sem tilheyra þessum vistum eru á Kili–Guðlaugstungum (132 km²), einkum í Kjalhrauni, við Seyðisá, í Beljandatungum og Guðlaugstungum. Þær þekja einnig stór svæði á Vesturöræfum–Brúardölum (61 km²) og við Skjálfandafljót (58 km²).

Verndargildi

Mjög hátt. Lyngmóavist og giljamóavist eru metnar saman.