Meðferð og innsending hræja

Rannsóknir á stofnstærð íslenska refastofnsins eru alfarið byggðar á góðu samstarfi við veiðimenn um allt land og eru veiðimenn hvattir til að senda stofnuninni hræ af felldum dýrum til krufninga. Mikilvægt er að fá gott þversnið af stofninum og því er óskað eftir að fá send hræ af öllum svæðum og árstímum. Reikniaðferðin sem beitt er við stofnmatið byggir á bakreiknaðri lágmarksstærð hvers árgangs veiðinnar á hverju ári.

Hverju hræi þarf að fylgja útfyllt eyðublað þar sem fram koma upplýsingar um veiðina, dagsetningu og skotstað (eins nákvæmt og hægt er), ásamt nafni, heimilisfangi og símanúmeri skyttu. Því nákvæmari upplýsingar sem koma með dýrinu, því betur nýtist það til rannsókna. Mikilvægt er að ganga vel frá hræinu og að það sé sem „nýlegast" þannig að hægt sé að gera mælingar á því. Sem dæmi um góðan frágang er að setja útfyllta eyðublaðið í plastpoka sem bundinn er við fótlegg dýrsins. Dýrið er sett í poka eða kassa og í frysti eða geymt á köldum stað þar sem hræætur ná ekki til þar til það er sent. Ef ekki fylgir eyðublað má festa spjald með nafni skyttu, dagsetningu og skotstað við dýrið.

Skyttur fá enga umbun fyrir að bera hræ til byggða, fylla út eyðublaðið og senda hræin, aðra en þá að fá upplýsingar um helstu niðurstöður krufninga og aldursgreininga á þeim dýrum sem þeir senda.

Hræin skal senda með eftirfarandi upplýsingum á umbúðum:

- Frystivara
- Verður sótt í vöruhús
- Innihaldslýsing
- Viðtakandi greiðir
- Nafn og símanúmer sendanda

Viðtakandi:

Náttúrufræðistofnun Íslands
Urriðaholtsstræti 6–8
210 Garðabæ