Melgambravist

Melgambravist

Racomitrium eriocoides heath

EUNIS-flokkun

E4.2 Moss and lichen dominated mountain summits, ridges and exposed slopes.

Lýsing

Allvel til fullgróið þurrlendi (30–100% þekja) í hlíðum, brekkum og öldóttu landi á úrkomusömum eða rökum svæðum. Vistgerðin myndar yfirleitt belti á milli melavista og sandvikravistar annars vegar og betur gróins lands hins vegar, einkum mosamóavistar. Gróður einkennist af mosanum melagambra (Racomitrium ericoides) sem myndar slitrótt til samfellt en þunnt gróðurlag. Þekja lágplöntuskánar er einnig mikil. Yfirborð er talsvert grýtt en undirlag misjafnt; melur, sandur, vikur og móberg. Þar sem gróður er mestur hefur þunnt lag af áfoksjarðvegi myndast. Gróður er yfirleitt mjög lágvaxinn (<5 cm) og gróskulítill. Háplöntuflóra í meðalagi tegundarík miðað við aðrar vistgerðir en tegundafjöldi mosa og fléttna yfir meðallagi.

Jarðvegur

Áfoksjörð og melajörð eru ráðandi en sandjörð og klapparjörð eru einnig talsvert algengar jarðvegsgerðir. Jarðvegsþykkt í meðallagi miðað við aðrar vistgerðir. Kolefnisinnihald er lágt (C% 1,09±0,12; n=15) en sýrustig allhátt (pH 6,59±0,03; n=15).

Plöntur

Mosinn Racomitrium ericoides er ríkjandi. Af háplöntum er grasvíðir með langmesta þekju en einnig er talsvert af kornsúru, lambagrasi, túnvingli og geldingahnappi. Algengustu mosategundir eru Racomitrium ericoides, Anthelia juratzkana, Dicranella subulata, Dicranoweisia crispula, Lophozia sudetica, Lophozia ventricosa, Polytrichum juniperinum, Nardia geoscyphus, Kiaeria falcata, Pohlia filum og Polytrichum sexangulare. Algengustu tegundir fléttna eru Stereocaulon arcticum og Placopsis gelida.

Fuglar

Átta af 13 mófuglategundum verpa, auk heiðagæsar og rjúpu. Þéttleiki mófugla er fremur lítill eða 8,4 pör/km² og eru snjótittlingur og heiðlóa algengust. 

Smádýr

Af tvívængjum er mókryppa (Megaselia sordida) algengust. Þar á eftir koma nokkrar tegundir af kálfluguætt (Anthomyiidae) og húsfluguætt (Muscidae). Sveppamýið Exechia frigida er einnig algengt. Ríkjandi bjöllutegundir eru gullsmiður (Amara quenseli), járnsmiður (Nebria rufescens) og silakeppur (Otiorhynchus arcticus). Sníkjuvespurnar Aclastus gracilis og Trimorus puntulator eru nokkuð algengar. Köngulóafána er fábreytt; heiðaló (Erigone tirolensis) er algengasta tegundin. Langleggur (Mitopus morio) er algengur.

Líkar vistgerðir

Sandvikravist, breiskjuhraunavist og mosamóavist.

Útbreiðsla á rannsóknasvæðum

Vistgerðin er stór (330 km²) og finnst aðallega á úrkomumestu svæðunum, einkum á afréttum Skaftártungu og Síðumanna (216 km²) við Markarfljót–Emstrur (45 km²), á Kili–Guðlaugstungum (49 km²) og í nokkrum mæli einnig í Þjórsárverum (15 km²). Á hinum svæðunum finnst vistgerðin aðeins í litlum mæli. 

Verndargildi

Lágt.