Runnamýravist á hálendi

L8.5

Eunis-flokkun

D4.162 Boreal black sedge-brown moss fens.

Runnamýravist á hálendi
Mynd: Sigurður H. Magnússon

Runnamýravist á hálendi í Mjóadal suðvestur af Íshólsvatni. Ríkjandi æðplöntur eru bláberjalyng og mýrelfting. Stinnastör, hengistör og fjalldrapi eru einnig algengar. Gróðursnið S21-1. – Boreal black sedge-brown moss fen in northeastern highlands.

Runnamýravist á hálendi
Mynd: Sigurður H. Magnússon

Runnamýravist á hálendi á Miðfjarðarhálsi í Miðfirði. Þekjumestu æðplöntur eru fjalldrapi, bláberjalyng, krækilyng og mýrastör. Gróðursnið NV- 21-02. – Boreal black sedge-brown moss fen in northwestern highlands.

Lýsing

Algrónar, flatar eða lítið eitt hallandi, deigar til blautar, mosaríkar og þýfðar mýrar með runnagróðri til heiða og í neðanverðu hálendinu. Þekja æðplantna og mosa er mikil en fléttna lítil. Gróður allhávaxinn og gróskumikill. Yfirborð fremur einsleitt, á skiptast blautar lægðir með mýrastör og vetrarkvíðastör og þurrari svæði vaxin bláberjalyngi, fjalldrapa og fleiri runnum. Lítið er um tjarnir og polla.

Plöntur

Vistgerðin er frekar rík af tegundum æðplantna, mjög rík af mosum en fléttutegundir eru í meðallagi. Af æðplöntum eru bláberjalyng (Vaccinium uliginosum), fjalldrapi (Betula nana), mýrastör (Carex nigra) og vetrarkvíðastör (C. chordor­rhiza) ríkjandi, fjallavíðir (Salix arctica) er einnig áberandi. Algengustu mosar eru móasigð (Sanionia uncinata), lémosi (Tomentypnum nitens), bleikjukollur (Aulacomnium palustre) og vætularfi (Schljakovianthus quadrilobus).

Jarðvegur

Mjög þykkur jarðvegur, mest lífræn jörð en áfoksjörð kemur einnig fyrir. Kolefnisinnihald og sýrustig  er í meðallagi.

Fuglar

Nokkurt fuglalíf, þúfutittlingur (Anthus pratensis) er einkennistegund en lóuþræll (Calidris alpina) og heiðlóa (Pluvialis apricaria) eru einnig áberandi, auk heiðagæsar (Anser barachyrhynchus).

Líkar vistgerðir

Hrossanálarvist, víðimóavist og runnamýravist á láglendi.

Útbreiðsla

Vistgerðin er fremur sjaldgæf á miðhálendinu, einna mest er um hana á votlendum svæðum á norðaustanverðu landinu.

Verndargildi

Hátt. Vistgerðin er á lista Bernarsamningsins frá 2014 yfir vistgerðir sem þarfnast verndar.

Runnamýravist á hálendi

Runnamýravist á hálendi er ekki aðgreind frá runnamýravist á láglendi á korti, en í heild eru þær útbreiddar og finnast í 45% landsreita. Flatarmál þeirra reiknast um 900 km2, óvissa er nokkur, óglögg skil við líkar vistgerðir. – The habitat type is on maps not separated from the related lowland type. Together they are common and found in 45% of grid squares. Their total area is estimated 900 km2.

Gróðurþekja, tegundafjöldi, raki, ríkjandi tegundir og fleiri tölulegar upplýsingar í runnamýravist á hálendi

Gróðurþekja æðplantna, mosa og fléttna. Sýnd eru meðaltöl fyrir heildarþekju og þekju ±staðalskekkja. Innan sviga er fjöldi mælinga. Grænar súlur sýna spönn allra vistgerða á landi. – Average total % cover of all plant groups (Heild), vascular plants (Æðplöntur), bryophytes (Mosar) and lichens (Fléttur), shown with lines and numbers ± s.e., n within brackets; bars indicate range for all habitat types.

Tegundafjöldi á sniðum. Sýnd eru meðaltöl fyrir fjölda tegunda æðplanta, mosa og fléttna ±staðalskekkja (lóðrétt strik). Innan sviga er fjöldi mælinga. Grænar súlur sýna spönn fyrir allar vistgerðir. – Average species richness of vascular plants, bryophytes and lichens, shown with lines and numbers ± s.e., n within brackets; bars indicate range for all habitat types.

Raki í jarðvegi. Sýnd er tíðni rakaflokka; forblautt, blautt, deigt og þurrt. Innan sviga er fjöldi mælinga. – Soil moisture classes %, n within brackets; classes are Very wet (Forblautt), Wet (Blautt), Moist (Deigt) and Dry (Þurrt).

Ríkjandi tegundir og tegundahópar í vistgerðinni. Sýnd er þekja og röð. – Order and % cover of dominant species.

Ýmsar niðurstöður: Gróðurhæð (Gh); Jarðvegsþykkt (Jþ); Kolefni í jarðvegi (C%); Sýrustig í jarðvegi (pH); Halli lands (H); Grýtniþekja (Gr). Sýnd eru meðaltöl ±staðalskekkja (lóðrétt strik). Innan sviga er fjöldi mælinga. Skyggðar súlur sýna spönn viðkomandi breytu fyrir allar vistgerðir. – Various results: Average vegetation height (Gh) and soil depth (Jþ), soil carbon (C%) and pH, land slope (H) and surface rocks (Gr) shown with lines and numbers ± s.e., n within brackets; bars indicate range for all habitat types.

Opna í kortasjá