Rústamýravist

L8.8

Eunis-flokkun

D3.1 Palsa mires.

Rústamýravist
Mynd: Sigurður H. Magnússon

Rústamýravist við Orravatn á Hofsafrétt. Næst er allþurr, vel gróin pallarúst en fjær er votlendi með tjörnum. Gróðursnið HRM04. – Palsa mire in northwestern highlands.

Rústamýravist
Mynd: Borgþór Magnússon

Rústamýravist í Illaveri í Þjórsárverum. Tjarnastör í flóa, fyrir miðju er dökkbrún og gróðurlítil rúst en til hægri gamalgrónar rústir með mólendisgróðri. – Palsa mire in southern highlands.

Lýsing

Hallalítið, vel gróið, mosaríkt votlendi með fjölbreyttum gróðri, hátt til fjalla, þar sem meðalárshiti er um eða undir -2 Cº. Yfirborð er breytilegt, tjarnir, flóar, smálækir og rústir með klakalinsum, yfirleitt klæddar flétturíkum mólendisgróðri. Gróska og hæð gróðurs er breytileg, mest í votlendi á milli rústa.

Plöntur

Vistgerðin er miðlungi rík af æðplöntutegundum, mjög rík af mosum og fremur rík af fléttum. Ríkjandi tegundir æðplantna eru hálmgresi (Calamagrostis stricta), fjallavíðir (Salix arctica), grasvíðir (S. herbacea) og klófífa (Eriophorum angustifolium). Algengastir mosa eru móasigð (Sanionia uncinata), roðakló (Sarmentypnum sarmentosum), bleytuburi (Sphagnum teres), seilmosi (Straminergon stramineum) og lindakló (Sarmentypnum exannulatum) en algengustu fléttur eru broddskilma (Ochrolechia frigida), torfubikar (Cladonia pocillum), hreindýrakrókar (C. arbuscula), skarlatbikar (C. borealis) og fjallabikar (C. stricta).

Jarðvegur

Lífræn jörð er ríkjandi en áfoksjörð finnst einnig, jarðvegur er fremur þykkur, frekar ríkur af kolefni og sýrustig í meðallagi.

Fuglar

Allfjölbreytt fuglalíf, þéttleiki mófugla er mikill, lóuþræll (Calidris alpina) og óðinshani (Phalaropus lobatus) eru einkennistegundir. Andfuglar, einkum heiðagæs (Anser barachyrhynchus) og hávella (Clangula hyemalis), eru einnig áberandi.

Líkar vistgerðir

Rekjuvist og hengistararflóavist.

Útbreiðsla

Finnst í votlendi á hálendinu, einkum í Þjórsárverum, Guðlaugstungum, á Hofsafrétt og á heiðum inn til lands á Austurlandi.

Verndargildi

Mjög hátt. Vistgerðin er á lista Bernarsamningsins frá 2014 yfir vistgerðir sem þarfnast verndar.

Rústamýravist

Rústamýravist er fágæt en hún finnst í 5% landsreita. Flatarmál hennar reiknast um 70 km2, óvissa er lítil. – The habitat type is rare in Iceland and is found within 5% of all grid squares. Its total area is estimated 70 km2.

Gróðurþekja, tegundafjöldi, raki, ríkjandi tegundir og fleiri tölulegar upplýsingar í rústamýravist

Gróðurþekja æðplantna, mosa og fléttna. Sýnd eru meðaltöl fyrir heildarþekju og þekju ±staðalskekkja. Innan sviga er fjöldi mælinga. Grænar súlur sýna spönn allra vistgerða á landi. – Average total % cover of all plant groups (Heild), vascular plants (Æðplöntur), bryophytes (Mosar) and lichens (Fléttur), shown with lines and numbers ± s.e., n within brackets; bars indicate range for all habitat types.

Tegundafjöldi á sniðum. Sýnd eru meðaltöl fyrir fjölda tegunda æðplanta, mosa og fléttna ±staðalskekkja (lóðrétt strik). Innan sviga er fjöldi mælinga. Grænar súlur sýna spönn fyrir allar vistgerðir. – Average species richness of vascular plants, bryophytes and lichens, shown with lines and numbers ± s.e., n within brackets; bars indicate range for all habitat types.

Raki í jarðvegi. Sýnd er tíðni rakaflokka; forblautt, blautt, deigt og þurrt. Innan sviga er fjöldi mælinga. – Soil moisture classes %, n within brackets; classes are Very wet (Forblautt), Wet (Blautt), Moist (Deigt) and Dry (Þurrt).

Ríkjandi tegundir og tegundahópar í vistgerðinni. Sýnd er þekja og röð. – Order and % cover of dominant species.

Ýmsar niðurstöður: Gróðurhæð (Gh); Jarðvegsþykkt (Jþ); Kolefni í jarðvegi (C%); Sýrustig í jarðvegi (pH); Halli lands (H); Grýtniþekja (Gr). Sýnd eru meðaltöl ±staðalskekkja (lóðrétt strik). Innan sviga er fjöldi mælinga. Skyggðar súlur sýna spönn viðkomandi breytu fyrir allar vistgerðir. – Various results: Average vegetation height (Gh) and soil depth (Jþ), soil carbon (C%) and pH, land slope (H) and surface rocks (Gr) shown with lines and numbers ± s.e., n within brackets; bars indicate range for all habitat types.

Opna í kortasjá