Sandvikravist

Sandvikravist

Sand and tephra fields

EUNIS-flokkun

H5.3 Sparsely- or unvegetated habitats on mineral substrates.

Lýsing

Gegndræpir vikrar og vikurblandaðir sandar og melar í brekkurótum, hæðum og í fjallshlíðum og sums staðar á flatlendi. Þrátt fyrir verulega úrkomu á sumum svæðum er vatn takmarkandi fyrir háplöntur. Yfirborð er mjög óstöðugt og einkennist af misgrófum vikri og vikursandi sem feykist til í stórviðrum. Land sums staðar allgrýtt og halli víða töluverður. Heildargróðurþekja er mjög breytileg en víðast hvar undir 8%, aðallega mosi sem einkum hefur numið land á steinum og á rindum þar sem sandrenningur er minnstur. Gróður er mjög lágvaxinn (<5 cm) og strjáll. Háplöntuflóra er mjög fábreytt og mosa- og fléttutegundir fáar. Vistgerðin finnst eingöngu á vikur- og sandsvæðum.

Jarðvegur

Sandjörð og melajörð. Kolefnisinnihald er mjög lágt (C% 0,19±0,04; n=20) en sýrustig frekar hátt (pH 6,76±0,05; n=20). Jarðvegsþykkt í meðallagi.

Plöntur

Ríkjandi háplöntutegundir eru fjallapuntur, melskriðnablóm og túnvingull. Algengustu tegundir mosa eru Racomitrium ericoides (melagambri), Arctoa fulvella og Dicranoweisia crispula en algengasta fléttutegundin er Placopsis gelida.

Fuglar

Afar fábreytt og strjált fuglavarp. Meðalþéttleiki mófugla er aðeins 1,8 pör/km². Snjótittlingar eru algengastir mófugla (0,9 pör/km²) en auk þeirra verpa í sandvikravist heiðlóa, spói og þúfutittlingur. Sandvikravist er mjög rýr og líklegt er að þeir fuglar sem skráðir voru þar hafi í raun orpið í öðrum vistgerðum, í jöðrum hennar og á blettum inni í sandvikravistinni.

Smádýr

Tegundir af kálfluguætt (Anthomyiidae) og húsfluguætt (Muscidae) eru allsráðandi; Botanophila fugax, Delia echinata, D. platura, Spilogona alpica, S. megastoma og Coenosia pumila. Mókryppa (Megaselia sordida) er algeng. Gullsmiður (Amara quenseli) er ríkjandi bjöllutegund, en silakeppur (Otiorhynchus arcticus) járnsmiður (Nebria gyllenhali) og hélukeppur (Otiorhynchus nodosus) eru einnig algengir. Af köngulóm er urðaló (Agyneta nigripes) ríkjandi. Langleggur (Mitopus morio) er algengur.

Líkar vistgerðir

Melagambravist og breiskjuhraunavist.

Útbreiðsla á rannsóknasvæðum

Vistgerðin er stór (407 km²) og víðast samfelld. Langstærstu svæðin eru á afréttum Skaftártungu og Síðumanna (348 km²), aðallega vestan við Langasjó og við Veiðivötn. Einnig stór landsvæði við Skyggnisvatn og Stórkonufell á rannsóknasvæðinu Markarfljót–Emstrur. Vistgerðin fannst í litlum mæli á hinum rannsóknasvæðunum. 

Verndargildi

Miðlungi hátt.