Sjávarfitjungsvist

L7.5 Sjávarfitjungsvist

Eunis-flokkun: A2.542 Atlantic lower shore communities.

Lýsing

Allvel gróin, votlendissvæði við sjávarstrendur, við efri mörk fjöru en við stórstraumsmörk eða neðar. Fitjarnar eru hallalitlar, oft með lænum, pollum og smátjörnum. Sjór flæðir yfir fitjarnar í stórstraumi og flóðum. Vistgerðin er því undir miklum áhrifum af sjó. Gróður er víða beltaskiptur þar sem neðst ríkja sjávarfitjungur og kattartunga en ofar taka við túnvingull og skriðlíngresi. Gróður er fremur lágvaxinn og oft mikið bitinn af gæsum, álftum og sauðfé. Hann einkennist af æðplöntum, en mosar og fléttur finnast í mjög litlum mæli.

Plöntur

Æðplöntuflóra er mjög fábreytt og einkennist af saltþolnum tegundum sem flestar eru bundnar við búsvæðið. Lágplöntutegundir mjög fáar. Af æðplöntum ríkja sjávarfitjungur (Puccinellia maritima), túnvingull (Festuca rubra ssp. richardsonii), kattartunga (Plantago maritima) og skriðlíngresi (Agrostis stolonifera). Af mosum finnst helst engjaskraut (Rhytidiadelphus squarrosus), brekkusigð (Sanionia orthothecioides) og fjörukragi (Schistidium maritimum), en af fléttum strandgráma (Physcia tenella) og veggjaglæða (Xanthoria parietina).

Jarðvegur

Er miðlungi þykkur, aðallega lífræn jörð og leiru­jörð, einnig finnst sandjörð og áfoksjörð. Kolefnisinnihald er frekar hátt en talsvert breytilegt, sýrustig í meðallagi en einnig breytilegt.

Fuglar

Ekki varpland vegna sjávarfalla en mikilvægt fæðuöflunarsvæði, einkum fyrir andfugla, þar á meðal margæs (Branta bernicla) og vaðfugla.

Líkar vistgerðir

Gulstararfitjavist.

Útbreiðsla

Vistgerðin finnst einkum á sjávarflæðum inni í flóum og fjörðum, mest við Faxaflóa og Breiðafjörð.

Verndargildi

Hátt. Vistgerðin er á lista Bernarsamningsins frá 2014 yfir vistgerðir sem þarfnast verndar.