Smádýr á jarðhitasvæðum

Náttúrufræðistofnun Íslands og Líffræðistofnun háskólans sáu um rannsókn á gróðri og smádýralífi jarðhitasvæða sem fram fór á árunum 2001–2002. Sex jarðhitasvæði í mismunandi landshlutum og í mismunandi hæð yfir sjó voru rannsökuð til að afla grunnupplýsinga um áhrif jarðhita á gróður og smádýralíf. Innan hvers svæðis var gróður, smádýr og nokkir umhverfisþættir rannsakaðir við misháan jarðvegshita, allt frá venjulegum köldum jarðvegi upp í heitan jarðveg alveg við hverina. Gróður var kortlagður, greindur til tegunda og þekja hans metin. Hiti í jarðvegi og jarðvegsdýpt voru mæld, jarðvegsgerð var metin og jarðvegs­sýni tekin til greininga á sýrustigi og kolefnisinnihaldi. Smádýrum var safnað í svokallaðar fallgildrur á fimm þessara svæða og þau svo greind til tegunda.

Smellið til að stækka
Mynd: N. Í. Lovísa Ásbjörndóttir

Rannsóknasvæði. Rannsóknir fóru fram á sex jarðhitasvæðum. Smádýr voru þó ekki rannsökuð í Reykjadölum.

ae_reykjanes_800
Mynd: Ásrún Elmarsdóttir

Reykjanes. Hveramiðja rannsóknasvæðisins við Gunnuhver á Reykjanesi. Reykjanes var eina jarðhitasvæðið sem rannsakað var á láglendi og er það nálægt sjó. Það var talsvert ólíkt hinum jarðhitasvæðunum hvað tegundasamsetningu varðar.

ae_fremstidalur_800
Mynd: Ásrún Elmarsdóttir

Fremstidalur. Hverasvæði í Fremstadal, á háhitasvæði Hengilsins, þar sem yfirborðshiti var yfir 70°C á 10 cm dýpi við hveramiðju. Mjög fáar tegundir plantna og smádýra þola svo mikinn hita.

ae_olkelduhals_800
Mynd: Ásrún Elmarsdóttir

Ölkelduháls. Lítið hverasvæði við Ölkelduháls á háhitasvæði Hengilsins. Mikill munur var á jarðvegshita á 115 m bili, frá um 10°C á 10 cm dýpi upp í um 80°C við hveramiðjuna. Miklar breytingar urðu bæði á gróðri og smádýralífi á þessu stutta bili.

me_hvitholar_800
Mynd: María Ingimarsdóttir

Hvíthólar. Hverasvæði á háhitasvæði Kröflu þar sem hinn hái jarðvegshiti var afar staðbundinn og féll mjög hratt skammt frá hveramiðju. Þrátt fyrir óhrjálegt umhverfi við hveramiðjuna eru smádýr þar samt á ferli.

ae_theistareykir_800
Mynd: Ásrún Elmarsdóttir

Þeistareykir. Hverasvæði á Þeistareykjum. Tegundasamsetning smádýra var svipuð og á Hvíthólum en ólík jarðhitasvæðunum sem rannsökuð voru á sunnanverðu landinu. Flestar tegundir smádýra fundust á Þeistareykjum.

Jarðhitasvæðin sem rannsökuð voru reyndust vera mjög ólík hvað smádýralíf varðar. Mikill munur var bæði á fjölda tegunda og tegundasamsetningu á milli rannsóknasvæða og fundust margar tegundir aðeins á einu eða tveimur svæðum.

Tiltölulega fáar tegundir smádýra þrífast við þær sérstöku aðstæður sem skapast næst hverum og fækkaði tegundum umtalsvert með auknum jarðvegs­hita. Tegunda­samsetning smádýra breyttist einnig mikið með auknum hita þannig að heitir og kaldir reitir höfðu fáar tegundir sameiginlegar. Af smádýrum fannst þó engin eiginleg jarðhitategund og geta allar tegundanna sem fundust í volgri eða heitri jörð líka þrifist utan jarðhitasvæða. Nokkrar tegundir eru þó þekktar af því að vera algengari við jarðhita en utan hans, svo sem fiðrildið reyrmölur Crambus pascuella og bjöllurnar eðjusmiður Bembidion grapei og leirsmiður Bembidion bipunctatum. Á svæðunum fundust fáeinar tegundir sem teljast sjaldgæfar á Íslandi og fundust þær við jarðhita, t.d. jötunuxinn Gyrohypnus angustatus og bjallan Tachyporus nitidulus.

Heildarfjöldi smádýra
Mynd: N. Í. María Ingimarsdóttir

Heildarfjöldi smádýrategunda við mismunandi jarðvegshita á öllum rannsóknasvæðunum. Tegundum fækkar mikið með auknum hita.

Scatella tenuicosta f. thermarum
Mynd: Erling Ólafsson

Laugaflugan Scatella tenuicosta f. thermarum. Þetta afbrigði flugunnar S. tenuicosta finnst einungis við jarðhita á Íslandi og þekkist ekki annars staðar í heiminum. Karl stígur í væng við áhugalitla kerlu og sýnir henni flókinn mökunardans. Flugurnar eru

Verkefnið var unnið samkvæmt samningi um öflun gagna um náttúrufar vegna „Rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma“. Skýrsla með niðurstöðum rannsóknanna kom út árið 2003.

13. desember 2005, Ásrún Elmarsdóttir og María Ingimarsdóttir.