Snarrótarvist

L9.4 Snarrótarvist

Eunis-flokkun: E3.4132 Boreal tufted hairgrass meadows.

Lýsing

Mjög gróskumikið graslendi á flatlendi og í ­brekkum, vaxið snarrótarpunti og fleiri graslendistegundum. Vistgerðin finnst einkum á láglendi í gömlu ræktar- og beitilandi þar sem jarðvegur er fremur þykkur og frjósamur. Land er algróið, gróður hávaxinn, æðplöntur algjörlega ríkjandi, mosi er lítill í sverði, fléttur finnast vart.

Plöntur

Vistgerðin er miðlungi rík af æðplöntum, en mjög fátæk af mosum og fléttum. Ríkjandi tegundir æðplantna eru snarrótarpuntur (Deschampsia caespitosa) og hálíngresi (Agrostis capillaris). Algengastir mosa eru engjaskraut (Rhytidiadelphus squarrosus), tildurmosi (Hylocomium splendens) og móasigð (Sanionia uncinata) en af fléttum finnst helst himnuskóf (Peltigera membranacea).

Jarðvegur

Áfoksjörð er ríkjandi en einnig finnst lífræn jörð á framræstu landi. Jarðvegur er allþykkur, miðlungi ríkur af kolefni og sýrustig frekar lágt.

Fuglar

Meðalríkt fuglalíf, algengustu varpfuglar eru þúfutittlingur (Anthus pratensis), hrossagaukur (Gallinago gallinago), lóuþræll (Calidris alpina) og stelkur (Tringa totanus).

Líkar vistgerðir

Língresis- og vingulsvist, sjávarkletta- og eyjavist og blómgresisvist.

Útbreiðsla

Finnst á láglendi í öllum landshlutum, einkum á landbúnaðarsvæðum. Algengust um suðvestan- og norðanvert landið.

Verndargildi

Hátt. Vistgerðin er á lista Bernarsamningsins frá 2014 yfir vistgerðir sem þarfnast verndar.