Starmóavist
Starmóavist
L10.3
Eunis-flokkun
Nýr flokkur, tillaga. E4.29 Icelandic Carex bigelowii heaths.
Starmóavist

Starmóavist á Þverdal upp af Vatnsfirði á Barðaströnd með stinnastör, grasvíði og hreindýrakrókum. Gróðursnið VF- 21-10. – Carex bigelowii heath in western Iceland.

Starmóavist norðan við Ströngukvísl á Ásgeirstungum. Vel gróið, deigt, mosaríkt mólendi með stinnastör, grasvíði, túnvingli og hálmgresi. Gróðursnið T01-2. – Carex bigelowii heath in northern highlands.
Lýsing
Þurrt til deigt, fremur hallalítið, grasleitt og mosaríkt mólendi til heiða og fjalla, vaxið stinnastör, grasvíði og fleiri mólendistegundum. Vistgerðin finnst einkum á mörkum votlendis og þurrara mólendis, meðfram ám og lækjarfarvegum og á milli votlendis og mela. Hún er vel gróin, gróður lágvaxinn, mosar eru ríkjandi, æðplöntuþekja talsverð og fléttuþekja nokkur.
Plöntur
Vistgerðin er miðlungi rík af æðplöntutegundum en mjög rík af mosum og fléttum. Ríkjandi tegundir æðplantna í vistgerðinni eru stinnastör (Carex bigelowii) og grasvíðir (Salix herbacea). Algengastir mosa eru móasigð (Sanionia uncinata), heiðahéla (Anthelia juratzkana) og melagambri (Racomitrium ericoides) en algengustu fléttur eru grábreyskja (Stereocaulon alpinum), hreindýrakrókar (Cladonia arbuscula), fjallabikar (C. stricta), broddskilma (Ochrolechia frigida), fjallaskóf (Peltigera rufescens) og fjallagrös (Cetraria islandica).
Jarðvegur
Áfoksjörð er ríkjandi en einnig finnst sand-, klappar- og melajörð. Jarðvegur er þurr eða deigur, miðlungs þykkur, miðlungi ríkur af kolefni. Sýrustig er í meðallagi.
Fuglar
Frekar rýrt fuglalíf, algengustu varpfuglar eru heiðlóa (Pluvialis apricaria), lóuþræll (Calidris alpina) og þúfutittlingur (Anthus pratensis).
Líkar vistgerðir
Lyngmóavist á hálendi, fléttumóavist og rekjuvist.
Útbreiðsla
Algeng og útbreidd vistgerð sem finnst á fremur snjóþungum stöðum til heiða og fjalla. Vistgerðin er algengust um vestan-, norðan- og austanvert landið.
Verndargildi
Miðlungs.

Starmóavist er útbreidd en hún finnst í 47% landsreita. Flatarmál hennar reiknast um 1.900 km2, óvissa mikil, óglögg skil við líkar vistgerðir. – The habitat type is common in Iceland and is found within 47% of all grid squares. Its total area is estimated 1,900 km2.

Gróðurþekja æðplantna, mosa og fléttna. Sýnd eru meðaltöl fyrir heildarþekju og þekju ±staðalskekkja. Innan sviga er fjöldi mælinga. Grænar súlur sýna spönn allra vistgerða á landi. – Average total % cover of all plant groups (Heild), vascular plants (Æðplöntur), bryophytes (Mosar) and lichens (Fléttur), shown with lines and numbers ± s.e., n within brackets; bars indicate range for all habitat types.
Tegundafjöldi á sniðum. Sýnd eru meðaltöl fyrir fjölda tegunda æðplanta, mosa og fléttna ±staðalskekkja (lóðrétt strik). Innan sviga er fjöldi mælinga. Grænar súlur sýna spönn fyrir allar vistgerðir. – Average species richness of vascular plants, bryophytes and lichens, shown with lines and numbers ± s.e., n within brackets; bars indicate range for all habitat types.
Raki í jarðvegi. Sýnd er tíðni rakaflokka; forblautt, blautt, deigt og þurrt. Innan sviga er fjöldi mælinga. – Soil moisture classes %, n within brackets; classes are Very wet (Forblautt), Wet (Blautt), Moist (Deigt) and Dry (Þurrt).
Ríkjandi tegundir og tegundahópar í vistgerðinni. Sýnd er þekja og röð. – Order and % cover of dominant species.
Ýmsar niðurstöður: Gróðurhæð (Gh); Jarðvegsþykkt (Jþ); Kolefni í jarðvegi (C%); Sýrustig í jarðvegi (pH); Halli lands (H); Grýtniþekja (Gr). Sýnd eru meðaltöl ±staðalskekkja (lóðrétt strik). Innan sviga er fjöldi mælinga. Skyggðar súlur sýna spönn viðkomandi breytu fyrir allar vistgerðir. – Various results: Average vegetation height (Gh) and soil depth (Jþ), soil carbon (C%) and pH, land slope (H) and surface rocks (Gr) shown with lines and numbers ± s.e., n within brackets; bars indicate range for all habitat types.