Starungsflóavist

L8.12

Eunis-flokkun

D4.163 Icelandic black sedge-brown moss fens.

Starungsflóavist
Mynd: Starri Heiðmarsson

Starungsflóavist norður af Miklavatni við Vestari-Héraðsvötn í Skagafirði. Blautur mýrastararflói með m.a. engjarós, mýrelftingu og tjarnastör. Gróðursnið SF-999-01. – Black sedge-brown moss fen in northern Iceland, on river plain.

Starungsflóavist
Mynd: Sigurður H. Magnússon

Starungsflóavist við Silungakíl í Húsey við ósa Lagarfljóts á Úthéraði. Gróskumikil mýrastör ríkjandi. Gróðursnið UT-32. – Black sedge-brown moss fen in eastern Iceland, on river plain.

Lýsing

Flatt og slétt, frjósamt mýrlendi, deigt til forblautt, vaxið mýrastör og fleiri votlendistegundum, í dalbotnum og á flóðasléttum vatnsfalla nærri sjó. Vatn stendur hátt, er á hreyfingu og steinefnaríkt. Land er algróið og gróður fremur hávaxinn, æðplöntur eru ríkjandi en mosaþekja er mikil, fléttur finnast ekki sökum bleytu.

Plöntur

Vistgerðin er fremur fátæk af æðplöntutegundum, mjög fátæk af mosum og fléttum. Af æðplöntum er mýrastör (Carex nigra) algerlega ríkjandi en túnvingull (Festuca rubra subsp. richardsonii) og gulstör (Carex lyngbyei) finnast í nokkrum mæli. Af mosum er pollalufsa (Drepanocladus aduncus) algengust en meðal annarra tegunda eru tjarnahrókur (Calliergon giganteum), flóahrókur (C. richard­sonii), mýrabrandur (Campylium stellatum) og tjarnakrækja (Scorpidium scorpioides).

Jarðvegur

Lífræn jörð er einráð, jarðvegur er mjög þykkur, kolefnisinnihald í meðallagi en sýrustig fremur lágt.

Fuglar

Allríkt fuglalíf, algengustu varpfuglar eru lóuþræll (Calidris alpina), hrossagaukur (Gallinago gallinago), spói (Numenius phaeopus), stelkur (Tringa tota­nus), jaðrakan (Limosa limosa) og óðinshani (Phalaropus lobatus). Beitiland álfta (Cygnus cygnus) og gæsa.

Líkar vistgerðir

Gulstararfitjavist og gulstararflóavist.

Útbreiðsla

Finnst í einhverjum mæli á láglendi í öllum landshlutum, þar sem víðáttumikil flæðilönd eru, svo sem með Héraðsvötnum í Skagafirði, Lagarfljóti á Úthéraði, í Flóa og Borgarfirði.

Verndargildi

Mjög hátt. Vistgerðin er á lista Bernarsamningsins frá 2014 yfir vistgerðir sem þarfnast verndar.

Starungsflóavist

Starungsflóavist er mjög fágæt en hún finnst í 2% landsreita. Flatarmál hennar reiknast um 70 km2, óvissa mikil, óglögg skil við líkar vistgerðir. – The habitat type is very rare in Iceland and is found within 2% of all grid squares. Its total area is estimated 70 km2.

Gróðurþekja, tegundafjöldi, raki, ríkjandi tegundir og fleiri tölulegar upplýsingar í starungsflóavist

Gróðurþekja æðplantna, mosa og fléttna. Sýnd eru meðaltöl fyrir heildarþekju og þekju ±staðalskekkja. Innan sviga er fjöldi mælinga. Grænar súlur sýna spönn allra vistgerða á landi. – Average total % cover of all plant groups (Heild), vascular plants (Æðplöntur), bryophytes (Mosar) and lichens (Fléttur), shown with lines and numbers ± s.e., n within brackets; bars indicate range for all habitat types.

Tegundafjöldi á sniðum. Sýnd eru meðaltöl fyrir fjölda tegunda æðplanta, mosa og fléttna ±staðalskekkja (lóðrétt strik). Innan sviga er fjöldi mælinga. Grænar súlur sýna spönn fyrir allar vistgerðir. – Average species richness of vascular plants, bryophytes and lichens, shown with lines and numbers ± s.e., n within brackets; bars indicate range for all habitat types.

Raki í jarðvegi. Sýnd er tíðni rakaflokka; forblautt, blautt, deigt og þurrt. Innan sviga er fjöldi mælinga. – Soil moisture classes %, n within brackets; classes are Very wet (Forblautt), Wet (Blautt), Moist (Deigt) and Dry (Þurrt).

Ríkjandi tegundir og tegundahópar í vistgerðinni. Sýnd er þekja og röð. – Order and % cover of dominant species.

Ýmsar niðurstöður: Gróðurhæð (Gh); Jarðvegsþykkt (Jþ); Kolefni í jarðvegi (C%); Sýrustig í jarðvegi (pH); Halli lands (H); Grýtniþekja (Gr). Sýnd eru meðaltöl ±staðalskekkja (lóðrétt strik). Innan sviga er fjöldi mælinga. Skyggðar súlur sýna spönn viðkomandi breytu fyrir allar vistgerðir. – Various results: Average vegetation height (Gh) and soil depth (Jþ), soil carbon (C%) and pH, land slope (H) and surface rocks (Gr) shown with lines and numbers ± s.e., n within brackets; bars indicate range for all habitat types.

Opna í kortasjá