Þangfjörur

Lýsing

Stórir brúnþörungar af ættbálknum Fucales eru ríkjandi og þangþekjan er yfir 50%. Greint er á milli vistgerða eftir því hvaða þangtegund er ríkjandi og er þá miðað við að hún þeki um þriðjung fjörunnar samkvæmt sjónmati. Tegundirnar sem um ræðir eru klóþang, bóluþang, skúfþang og sagþang. Engin skörp skil eru milli vistgerða og ekki er vitað að nein dýrategund sé bundin við eina gerð umfram aðra. Klóþang er útbreiddasta þangtegundin, en þar sem gætir brims verður bóluþang og skúfþang meira áberandi. Fjörupollar eru algengir og selta er að jafnaði há. Á svæðum þar sem selta er lægri er bóluþang yfirleitt algengara en aðrar þangtegundir.

Þangfjörur eru ein útbreiddasta fjöruvistgerðin á Íslandi. Þær eru mjög tegundaríkar, en tegundafjöldi dýra er mestur suðvestanlands en minni norðan- og austanlands (Agnar Ingólfsson 1990, 2006). Margar tegundanna dreifast eftir hæð og raða sér í frekar skýrt afmörkuð belti í fjörunni. Efst í fjörunni er brimúðabelti, þar sem fléttutegundin fjörusverta ríkir og litar grjótið dökkt. Þar sem fjörur eru tiltölulega skjólsælar, er algengt að dvergþang myndi mjótt belti næst efri mörkum fjörunnar. Norðurmörk útbreiðslu dvergþangs eru við norðanverðan Breiðafjörð (Agnar Ingólfsson 2006). Fyrir neðan dvergþangið er mjó ræma af klapparþangi. Ef dvergþang er ekki til staðar myndar klapparþang efsta þangbelti fjörunnar. Neðan við klapparþangið tekur við mjög breitt belti af klóþangi og/eða bóluþangi. Í neðri helmingi fjörunnar getur skúfþang eða sagþang verið ríkjandi. Neðst í fjörunni er svæði sem inniheldur ýmsa smávaxna rauð- og grænþörunga, eins og fjörugrös, sjóarkræðu, kóralþang og grænhimnu. Tegundafjöldinn fer vaxandi eftir því sem neðar dregur í fjöruna. Allra neðst er það svo þaraskógurinn sem ræður ríkjum en þá er komið niður fyrir hina eiginlegu fjöru.

Fjörubeður

Klappir, stórgrýti, hnullungar, steinvölur.

Fuglar

Mikið fuglalíf er árið um kring, mest þó um fartímann á vorin. Að jafnaði er mest af fuglum í skjólsömum þangfjörum og í blönduðum þang- og leirufjörum.

Líkar vistgerðir

Hrúðurkarlafjörur, brimasamar hnullungafjörur og grýttur sandleir.

Útbreiðsla

Allt í kringum landið nema við sanda suðurstrandarinnar og á mjög brimasömum svæðum.

Verndargildi

Verndargildi þangfjara ræðst af þangfjörugerð (undirvistgerð).

Áberandi gróður – Conspicuous vegetation Áberandi dýr – Conspicuous animals
Fjörusverta Hydropunctaria maura Doppur Littorina spp.
Þang Fucus spp. Baugasnotra Onoba aculeus
Fjörugrös Chondrus crispus Mærudoppa Skeneopsis planorbis
Kólgugrös Devaleraea ramentacea Hrúðurkarl Semibalanus balanoides
Steinskúfur Cladophora rupestris Kræklingur Mytilus edulis
Sjóarkræða Mastocarpus stellatus Mæruskel Turtonia minuta
Söl. Palmaria palmata Nákuðungur Nucella lapillus
Maríusvunta Ulva lactuca Fjöruflær Gammarus spp.
Hrossaþari Laminaria digitata Þanglýs Idotea spp.
Beltisþari Saccharina latissima Fjörulýs Jaera spp.
Dvergþang Pelvetia canaliculata Ljósafló Anonyx sarsi
Klóþang Ascophyllum nodosum    

 

Opna í kortasjá – Open in map viewer

 

Heimildir

Agnar Ingólfsson 1990. Íslenskar fjörur. Bjallan. Reykjavík.

Agnar Ingólfsson 2006. The intertidal seashore of Iceland and its animal communities. The Zoology of Iceland, Vol I, part 7. Levin & Munksgaard, Ejnar Munksgaard, Kaupmannahöfn; Reykjavík, 85 bls.