Urðarskriðuvist

L3.1

Eunis-flokkun

Nýr flokkur, tillaga. H2.13 Icelandic talus slopes.

Urðarskriðuvist
Mynd: Guðmundur Guðjónsson

Urðarskriðuvist undir Arnarhyrnu á Snæfellsnesi. Mjög stórgrýtt skriða, að stórum hluta vaxin hraungambra. Gróðursnið SN-31-02 í sömu skriðu en nokkru austar. – Talus slope in western Iceland.

Urðarskriðuvist
Mynd: Sigurður H. Magnússon

Urðarskriðuvist í Hvammsskriðu í Vatnsdal. Mjög stórgrýtt skriða eða urð. Á grjótinu vaxa fléttur, einkum geitanafli, en mosinn hraungambri myndar teppi á stórgrýtinu á blettum. Engar æðplöntur fundust á sniðinu. Gróðursnið NV- SK-01. – Talus slope in northwestern Iceland.

Lýsing

Brattar, yfirleitt stöðugar, mjög stórgrýttar og grófar basalt- og líparítskriður og urðir. Gróður er ­nokkur, mosar að uppistöðu, einnig svolítið um fléttur en mjög lítið er um æðplöntur. Gróður er því mjög lágvaxinn. Mosinn hraungambri setur svip á flestar skriður í þessum flokki og myndar víða samfelldar breiður ofan á stórgrýtinu.

Plöntur

Vistgerðin er fátækust allra vistgerða af æðplöntum en af þeim finnast helst blávingull (Festuca vivipara) og ólafssúra (Oxyria digyna). Mosaflóra er fremur fábreytt en fjöldi fléttutegunda í meðallagi. Algengastir mosa eru hraungambri (Racomitrium lanuginosum) og holtasóti (Andreaea rupestris) en algengustu fléttur eru hraunbreyskja (Stereocaulon vesuvianum) og landfræðiflikra (Rhizocarpon geo­graphicum).

Jarðvegur

Eiginlegur jarðvegur er nánast enginn en mikið holrými er á milli steina. Klapparjörð er ráðandi jarðvegsgerð. Kolefnisinnihald jarðvegs mælt undir mosa er frekar hátt en sýrustig mjög lágt. Raki ræðst nánast eingöngu af úrkomu og bindingu í mosa þar sem skriðurnar halda nánast engu vatni.

Fuglar

Strjált fuglalíf, en varpland steindepils (Oenanthe oenanthe) og snjótittlings (Plectrophenax nivalis). Hrafn (Corvus corax), smyrill (Falco colunbarius) og fálki (Falco rusticolus) í klettum.

Líkar vistgerðir

Ljónslappaskriðuvist og grasvíðiskriðuvist.

Útbreiðsla

Finnst í bröttu fjalllendi í öllum landshlutum.

Verndargildi

Miðlungs. Vistgerðin er á lista Bernarsamningsins frá 2014 yfir vistgerðir sem þarfnast verndar.

Urðarskriðuvist

Urðarskriðuvist er ekki aðgreind frá öðrum skriðuvistum á korti, en í heild eru þær mjög útbreiddar og finnast í 62% landsreita. Flatarmál þeirra reiknast um 6.300 km2, óvissa er fremur lítil. – The three scree habitat types are not separated on the map. They are as a whole very common in Iceland and found within 62% of all grid squares. Their total area is estimated 6,300 km2.

Gróðurþekja, tegundafjöldi, raki, ríkjandi tegundir og fleiri tölulegar upplýsingar í urðarskriðuvist

Gróðurþekja æðplantna, mosa og fléttna. Sýnd eru meðaltöl fyrir heildarþekju og þekju ±staðalskekkja. Innan sviga er fjöldi mælinga. Grænar súlur sýna spönn allra vistgerða á landi. – Average total % cover of all plant groups (Heild), vascular plants (Æðplöntur), bryophytes (Mosar) and lichens (Fléttur), shown with lines and numbers ± s.e., n within brackets; bars indicate range for all habitat types.

Tegundafjöldi á sniðum. Sýnd eru meðaltöl fyrir fjölda tegunda æðplanta, mosa og fléttna ±staðalskekkja (lóðrétt strik). Innan sviga er fjöldi mælinga. Grænar súlur sýna spönn fyrir allar vistgerðir. – Average species richness of vascular plants, bryophytes and lichens, shown with lines and numbers ± s.e., n within brackets; bars indicate range for all habitat types.

Raki í jarðvegi. Sýnd er tíðni rakaflokka; forblautt, blautt, deigt og þurrt. Innan sviga er fjöldi mælinga. – Soil moisture classes %, n within brackets; classes are Very wet (Forblautt), Wet (Blautt), Moist (Deigt) and Dry (Þurrt).

Ríkjandi tegundir og tegundahópar í vistgerðinni. Sýnd er þekja og röð. – Order and % cover of dominant species.

Ýmsar niðurstöður: Gróðurhæð (Gh); Jarðvegsþykkt (Jþ); Kolefni í jarðvegi (C%); Sýrustig í jarðvegi (pH); Halli lands (H); Grýtniþekja (Gr). Sýnd eru meðaltöl ±staðalskekkja (lóðrétt strik). Innan sviga er fjöldi mælinga. Skyggðar súlur sýna spönn viðkomandi breytu fyrir allar vistgerðir. – Various results: Average vegetation height (Gh) and soil depth (Jþ), soil carbon (C%) and pH, land slope (H) and surface rocks (Gr) shown with lines and numbers ± s.e., n within brackets; bars indicate range for all habitat types.

Opna í kortasjá