Vöktun margæsa

Tímamörk

Langtímaverkefni, árleg alþjóðleg talning margæsa Branta bernicla hrota um miðjan október.

Samstarfsaðilar

Irish Brent Goose Research Group.

Um verkefnið – Markmið og verkþættir

Markmið verkefnisins er að vakta margæsastofninn með talningum. Margæsir, sem hafa vetursetu á Írlandi, hafa viðdvöl á Íslandi vor og haust á leið sinni til og frá varpstöðvum í NA-Kanada. Til eru miðsvetrartalningagögn frá vetrarstöðvum þeirra síðan 1960. Árið 2002 var talningum flýtt fram á haustið þegar allt að 70% þeirra hafa viðdvöl í Strangford Lough í október. Það auðveldar yfirsýn og framkvæmd talningar áður en þær dreifa sér suður um austurströnd og yfir á vesturströnd Írlands. Vegna hættu á að missa af síðbúnum fuglum á Íslandi hefur verið talið á vestanverðu landinu samtímis talningunni á Írlandi.

Nánari upplýsingar

Margæs

Niðurstöður

Talningar á Íslandi hafa farið fram 18 sinnum síðan 2002, en féll niður árið 2014. Fjöldi er mjög breytilegur og ræðst af því hvenær í október talningin fer fram, af tíðarfari og varpárangri, en að meðaltali eru 10,4% enn á Íslandi þegar stofnstærð er metin (bil 0,1–28,8% eða 34–10.013 fuglar). Það er því afar mikilvægt að talning fari fram samtímis á allri farleið stofnsins.

Tengiliður

Guðmundur A. Guðmundsson, dýravistfræðingur.