Æðplöntur

Æðplöntur, oft kallaðar háplöntur, skiptast í tvo meginhópa, fræplöntur og byrkninga.

Fræplöntur eru fjölbreyttur hópur plantna sem innihalda blómplöntur og berfrævinga.

  • Blómplöntur, öðru nafni dulfrævingar, mynda blóm og þroska sumar aldin.
    • Tvíkímblöðungar (Magnoliopsida) eru flestar þær plöntur sem í daglegu tali kallast blóm.
    • Einkímblöðungar (Liliopsida) eru grös, starir auk lilju- og brönugrasaættar. Einnig tilheyra pálmar einkímblöðungum.
  • Berfrævingar, öðru nafni barrtré, eru einir og innfluttu tegundirnar lerki, greni og fura.

Byrkningar, öðru nafni gróbærar æðplöntur, mynda ekki blóm og þroska ekki fræ. Þeir eru háðir vatni við kynæxlun og mynda á grólið sínum gróhirslur sem framleiða mikið magn af gróum. Til byrkninga teljast burknar og tungljurtir, jafnar og álftalaukur og elftingar.

SKOÐA FLOKKUNARKERFI OG LEITA AÐ ÆÐPLÖNTUM

Fjöldi tegunda

Íslenska æðplöntuflóran telur um 490 tegundir og má sjá yfirlit yfir þær í Íslensku plöntutali (pdf). Blómplöntur eru um 450 talsins, þar af rúmlega 300 tvíkímblöðungar, 145 einkímblöðungar og fjórir berfrævingar. Byrkningar telja um 40 tegundir, þar af eru 23 burknar.

Rúmlega helmingur æðplöntutegunda er algengur um landið, eins og túnfífill og brennisóley. Aðrar tegundir vaxa ekki jafn víða og sumar eru mjög staðbundnar við ákveðinn landshluta. Dæmi um þetta er bláklukka og gullsteinbrjótur sem eru nokkurs konar einkennisplöntur á Austurlandi og draumsóley og krossjurt á Vestfjörðum. Einnig eru tegundir sem hafa aðeins fundist á einum eða örfáum vaxtarstað á landinu, eins og skeggburkni á Norðurlandi og burstajafni á Suðausturlandi.

Innlend eða útlend tegund

Plöntutegundir eru gjarnan flokkaðar í innlendar og útlendar. Innlend tegund er sú sem er innan náttúrulegs útbreiðslusvæðis og hefur þróast þar eða komist þangað með náttúrulegum hætti. Samkvæmt reglugerð nr. 398/2011 um innflutning, ræktun og dreifingu útlendra plöntutegunda teljast 438 tegundir æðplantna innlendar og eru þær tilgreindar í viðauka 1 í reglugerðinni.

Válistategundir og friðlýsing tegunda

Válistar eru skrár yfir lífverutegundir sem eiga undir högg að sækja eða eru taldar vera í útrýmingarhættu í tilteknu landi eða svæði. Válisti æðplantna er gefinn út af Náttúrufræðistofnun Íslands.

Í nóvember 2021 undirritaði umhverfis- og auðlindaráðherra auglýsingu um friðun æðplantna, mosa og fléttna í samræmi við náttúruverndaráætlun 2009-2013 og með vísan til 1. mgr. 56. gr. laga um náttúruvernd, nr. 60/2013. Tegundirnar eru friðaðar hvarvetna sem þær vaxa og finnast villtar í náttúru landsins og eru þær listaðar upp í viðauka í auglýsingunni. Upplýsingar um útlit, vaxtarstaði og dreifingu má nálgast hjá Náttúrufræðistofnun Íslands.