Fjöruvistgerðir

Fjöruvistgerðir

Fjaran er hluti af búsvæði sjávar, með fullsöltum eða ísöltum sjó. Þar með teljast strandvötn, lón, árósar og sjávarfitjar. Miðað er við að fjaran afmarkist af neðri mörkum stórstraumsfjöru og hæstu flóðamörkum. Þó eru saltir og ísaltir sjávarpollar efst í fjöru eða ofan stórstraumsmarka óbeint hluti fjörunnar, ásamt brimúðabeltinu þar sem fjörusverta vex.

Brimasemi ásamt undirlagi fjörunnar hefur líklega langmest áhrif á lífríkið sem þar er. Einnig ræður nokkru halli fjörunnar, selta og hitastig sjávar. Yfirleitt er leir eða fíngerður sandur í skjólsælum fjörum, en kletta og stórgrýtisfjörur eru einna helst fyrir opnu hafi þar sem brimasemi er meiri. Þar sem brim er mikið eru flestar lífverur fastar við botninn en hreyfanlegar lífverur geta þó þrifist þar í skjóli undir þanginu. Eftir því sem brimið minnkar eykst fjöldi hreyfanlegra lífvera í fjörunni.

Greint er á milli fjörugerða eftir brimasemi, gerð fjörubeðs, ríkjandi þangi og dýralífi. Fyrst er greint á milli tveggja megingerða: setfjöru og grýttrar fjöru, en grýttum fjörum er skipt í þangfjörur og þangsnauðar fjörur. Hver þessara meginfjörugerða er flokkuð frekar í sífellt sértækari undirgerðir. Þannig er alls greint á milli 19 gerða af fjörum.