Náttúruvá

Náttúruvá á Íslandi er af margvíslegum toga og tengist innrænum og útrænum öflum sem sífellt takast á í náttúrunni.

  • Innræn öfl eiga sér upptök í iðrum jarðar. Þau valda náttúruvá sem rekja má til eldvirkni og jarðskjálfta. Dæmi um vá af þessu tagi eru hraunrennsli, öskufall og eðjustraumar, jökulhlaup vegna eldsumbrota eða jarðhitavirkni undir jökli og gasútstreymi og eiturgufur frá eldgosum.
  • Útræn öfl eiga upptök í aðdráttarafli jarðar eða sólarorkunni. Þau valda náttúruvá sem beint og óbeint stafar af ýmsum veðurfarsþáttum (frost, fallvötn, vindar og fleira). Dæmi um þetta eru stormar og óveður, sjávarbrim og landbrot, vatnavextir og flóð auk svonefndra ofanflóða, en þar er átt við snjóflóð og skriðuföll.

Veðurstofa Íslands vaktar og bregst við náttúruvá á Íslandi í samvinnu við fleiri stofnanir, meðal annars Náttúrufræðistofnun Íslands sem tekur þátt í að vakta og rannsaka skriðuföll á landinu. Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra hefur það hlutverk að gera viðbragðsáætlanir, upplýsa og tryggja öryggi almennings.