Moldavist

L2.1

Eunis-flokkun

Nýr flokkur, tillaga. H5.7 Icelandic exposed andic soils.

Moldavist
Mynd: Sigurður H. Magnússon

Moldavist við Heygil á Hrunamannaafrétti. Helstu tegundir eru klóelfting, hundasúra, hnúskakrækill og skurfa. Gróðursnið HG20. – Exposed andic soil in southern highlands.

Moldavist
Mynd: Borgþór Magnússon

Moldavist við Seljadalsá vestan við Ljótarstaði í Skaftártungu. Lítt gróið land með skriðlíngresi, túnvingli og vallarsveifgrasi. Gróðursnið E17-1. – Exposed andic soil in southern Iceland.

Lýsing

Lítt til allvel gróin rofsvæði og rofjaðrar, rofabörð og moldir, sem ýmist eru að blása upp eða gróa á ný eftir rof. Vistgerðin myndar oftast fremur mjótt belti milli gamalgróins þurrlendis og örfoka lands eins og mela og grjóts. Næst rofabörðum er yfirborð þurrt, óstöðugt og mjög gróðurlítið. Yfirborð er yfirleitt slétt en halli misjafn. Gróðurþekja er mjög breytileg. Gróðurinn, sem samanstendur að langmestu leyti af æðplöntum, er undir miklu álagi af völdum áfoks og svörfunar. Mosa- og fléttuþekja er óveruleg.

Plöntur

Vistgerðin er fátæk af tegundum, einkanlega af mosum og fléttum. Af æðplöntum er mest um klóelftingu (Equisetum arvense) og týtulíngresi (Agrostis vinealis). Af mosum finnast helst melagambri (Racomitrium ericoides), hlaðmosi (Ceratodon purpureus), melhöttur (Pogonatum urnigerum) og Pohlia filum. Engin fléttutegund telst algeng.

Jarðvegur

Jarðvegur er þykkur, mest áfoksjörð og lífræn jörð, oft með þykkum öskulögum, þurr til deigur. Kolefnismagn er frekar lágt en breytilegt eftir stöðum en sýrustig frekar hátt.

Fuglar

Nánast ekkert fuglalíf, helst von á stöku mófuglum í ætisleit.

Líkar vistgerðir

Engar.

Útbreiðsla

Finnst á rofsvæðum, algengust á gosbelti landsins, einkum á miðhálendinu og í hálendisbrúninni.

Verndargildi

Lágt.

Moldavist

Moldavist er allútbreidd en hún finnst í 24% landsreita. Flatarmál hennar reiknast um 50 km2, óvissa er nokkur. – The habitat type is fairly common in Iceland and is found within 24% of all grid squares. Its total area is estimated 50 km2.

Gróðurþekja, tegundafjöldi, raki, ríkjandi tegundir og fleiri tölulegar upplýsingar í moldavist

Gróðurþekja æðplantna, mosa og fléttna. Sýnd eru meðaltöl fyrir heildarþekju og þekju ±staðalskekkja. Innan sviga er fjöldi mælinga. Grænar súlur sýna spönn allra vistgerða á landi. – Average total % cover of all plant groups (Heild), vascular plants (Æðplöntur), bryophytes (Mosar) and lichens (Fléttur), shown with lines and numbers ± s.e., n within brackets; bars indicate range for all habitat types.

Tegundafjöldi á sniðum. Sýnd eru meðaltöl fyrir fjölda tegunda æðplanta, mosa og fléttna ±staðalskekkja (lóðrétt strik). Innan sviga er fjöldi mælinga. Grænar súlur sýna spönn fyrir allar vistgerðir. – Average species richness of vascular plants, bryophytes and lichens, shown with lines and numbers ± s.e., n within brackets; bars indicate range for all habitat types.

Raki í jarðvegi. Sýnd er tíðni rakaflokka; forblautt, blautt, deigt og þurrt. Innan sviga er fjöldi mælinga. – Soil moisture classes %, n within brackets; classes are Very wet (Forblautt), Wet (Blautt), Moist (Deigt) and Dry (Þurrt).

Ríkjandi tegundir og tegundahópar í vistgerðinni. Sýnd er þekja og röð. – Order and % cover of dominant species.

Ýmsar niðurstöður: Gróðurhæð (Gh); Jarðvegsþykkt (Jþ); Kolefni í jarðvegi (C%); Sýrustig í jarðvegi (pH); Halli lands (H); Grýtniþekja (Gr). Sýnd eru meðaltöl ±staðalskekkja (lóðrétt strik). Innan sviga er fjöldi mælinga. Skyggðar súlur sýna spönn viðkomandi breytu fyrir allar vistgerðir. – Various results: Average vegetation height (Gh) and soil depth (Jþ), soil carbon (C%) and pH, land slope (H) and surface rocks (Gr) shown with lines and numbers ± s.e., n within brackets; bars indicate range for all habitat types.

Opna í kortasjá