Jarðminjar

Jarðminjar

Fylgst er með áhrifum ferðamanna á jarðminjar svo hægt sé að bregðast tímanlega við til að lágmarka skemmdir. Jarðminjar geta verið viðkvæmar og ef þær skemmast er ekki hægt að endurheimta þær. Skemmdir geta verið vegna almennrar umgegni ef innviðir og stýring eru ekki í lagi en einnig vegna ólöglegra athafna svo sem áletrana, söfnunar, aksturs utan vega og vörðuhleðslu. Mismunandi vöktunaraðferðir eru notaðar eftir gerð jarðminja og ólíkir vísar skoðaðir. Flestar aðferðirnar styðjast þó við kortlagningu á myndkort í hárri upplausn og endurtekna ljósmyndun af álagssvæðum.

Eldvörp, eldhraun og gervigígar

Gosmyndanir frá nútíma eru fágætar á heimsvísu og njóta sérstakrar verndar samkvæmt 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Þær eru oft með viðkvæmt yfirborð sem raskast auðveldlega við álag. Mosi á hraunum er fljótur að láta á sjá ef álag er mikið. Fylgst er með breytingum með því að nota myndkort, endurtekna ljósmyndun og mælingar.

Hraunhellar njóta sérstakrar verndar samkvæmt 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd og hafa mjög hátt verndargildi. Í þeim er oft að finna viðkvæmar myndanir, svo sem dropsteina, hraunstrá og örveruskán, og í vinsælustu hellum landsins hafa myndanir af því tagi nánast allar verið eyðilagðar. Nokkrum af fegurstu hraunhellum landsins hefur þurft að loka þeim til verndunar og í öðrum hafa viðkvæm svæði verið girt af. Fylgst er með aðkomuleiðum að hellum en ástand gróðurs á leiðinni að og umhverfis hella gefur vísbendingar um álag inni í hellunum sjálfum. Viðkvæmar myndanir eru vaktaðar með endurtekinni ljósmyndun.

Hellar

Hraunhellar njóta sérstakrar verndar samkvæmt 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd og hafa mjög hátt verndargildi. Í þeim er oft að finna viðkvæmar myndanir, svo sem dropsteina, hraunstrá og örveruskán, og í vinsælustu hellum landsins hafa myndanir af því tagi nánast allar verið eyðilagðar. Nokkrum af fegurstu hraunhellum landsins hefur þurft að loka þeim til verndunar og í öðrum hafa viðkvæm svæði verið girt af. Fylgst er með aðkomuleiðum að hellum en ástand gróðurs á leiðinni að og umhverfis hella gefur vísbendingar um álag inni í hellunum sjálfum. Viðkvæmar myndanir eru vaktaðar með endurtekinni ljósmyndun.

Fossar og gljúfur

Fossar og nánasta umhverfi þeirra, að því leyti að sýn að þeim spillist ekki, njóta sérstakrar verndar samkvæm 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Fossar og gljúfur hafa mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn og við álag er hætta á gróður- og jarðvegseyðingu á vinsælustu útsýnisstöðum. Fylgst er með stígum, myndun hentistíga og álagssvæða og verður notast við myndkort, endurtekna ljósmyndun og mælingar.

Landmótun jökla

Við hörfun jökla kemur í ljós nýtt land sem jökullinn hefur mótað. Þar eru rofform í berg- og jarðgrunni og setmyndanir sem jöklarnir skilja eftir. Nokkur ásókn er inn á þessi svæði í íshellaskoðun og aðra útivist og á vinsælum svæðum er fylgst með skemmdum sem verða vegna utanvegaaksturs. Gerð eru myndkort, fylgst með viðkvæmum jarðmyndunum og kannað hvort hentistígar og slóðar séu að myndast.

Laus jarðlög

Fylgst er með áhrifum bílaumferðar á laus jarðlög, til dæmis á söndum framan við jökla og á gróðurlitlum gjóskusvæðum. Slóðar eru skoðaðir og utanvegaakstur skráður, farið er yfir hvort einhverjir staðir við slóða séu aðgengilegri en aðrir fyrir utanvegaakstur og kannað er hvort slóðum fjölgi og hvort þeir séu að breikka. Notast er við myndkort, endurtekna ljósmyndun og mælingar.

Jarðhitasvæði

Jarðhitasvæði landsins eru vinsælir áfangastaðir ferðamanna en þau eru jafnframt mjög viðkvæm. Fylgst er með hinum ýmsu myndunum, svo sem hverahrúðri, brennisteinsþúfum og kísil- og kalkútfellingum, og skemmdir skráðar. Einnig er fylgst með traðki á hveraleir og öðrum jarðvegi utan skipulagðra göngustíga og hvort verið sé að útbúa baðlaugar með fyrirhleðslum í afrennslislækjum eða tilflutningi á vatni.

Sífreri og rústasvæði

Rústasvæði eru mjög viðkvæm og eiga þau undir högg að sækja vegna loftslagshlýnunar. Svæðin verja sig að einhverju leyti sjálf, þar sem þau eru illfær vegna bleytu, en vegna hugsanlegra breytinga vegna hlýnunar er mikilvægt að fylgjast með umferð gesta til að kanna hvort hún hafi áhrif á svæðin. Breytingar á slóðum og stígum eru metnar og skráðar. Þetta er gert með myndkortum og endurtekinni ljósmyndun.

Steingervingar og steindir

Steindir og steingervingar njóta verndar samkvæmt 60 . gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Óheimilt er að nema á brott eða losa steingervinga af fundarstað og getur ráðherra mælt fyrir í reglugerð um vernd steinda. Fylgst er með nokkrum fundarstöðum með aðstoð myndkorta þar sem hægt er og endurtekinni ljósmyndun til að kanna hvort steindir og steingervingar séu fjarlægðir.

Móberg

Móberg verður til við gos undir jökli eða í vatni og er það óvíða jafn algengt og á Íslandi. Það hefur hátt verndargildi á heimsvísu þó að það njóti ekki sérstakrar verndar hér á landi líkt og nútímahraun. Móberg getur verið mjúkt og fyrir kemur að krotuð eru fangamörk í það. Þegar það fyrsta er komið fylgja oft fleiri í kjölfarið. Vörðuhleðsla er annað vandamál sem brýnt er að koma í veg fyrir á móbergssvæðum eins og öðrum stöðum. Fylgjast þarf með svæðunum og sjá til þess að áletranir og annað rask sé afmáð jafnóðum.

Heimildir

Heasler, H.P., C. Jaworowski og D. Foley 2009. Monitoring Geothermal Systems and Hydrothermal Features. Í Young, R. og L. Norby. Geological Monitoring, bls. 105–140. Boulder, Coloroado: Geological Society of America.

Karpilo, R.D., Jr. 2009. Glacier monitoring techniques. Í Young, R. og L. Norby L. Geological Monitoring, bls. 141–162. Boulder, Coloroado: Geological Society of America.

Lima, A., J.C. Nunes and J. Brilha 2017. Monitoring of the Visitors Impact at „Ponta de Ferraria e pico das Camarinhas“ Geosite (Sao Miguel Island, Azores UNESCO Global Geopark, Portugal. Geoheritage 9: 495–503. DOI 10.1007/s12371-016-0203-2

Lord M.L., D. Germanoski og N.E. Allmendinger 2009. Monitoring River Systems and Fluvial Landform. Í Young R. og L. Norby. Geological Monitoring, bls. 69–103. Boulder, Coloroado: Geological Society of America.

Osterkamp T.E. og M.T. Jorgensen 2009. Permafrost conditions and processes. Í Young, R. og L. Norby. Geological Monitoring, bls. 205–227. Boulder, Coloroado: Geological Society of America.

Santucci, V.L., J.P. Kenworthy og A.L. Mims 2009. Monitoring in situ paleontological resources. Í Young, R. og L. Norby. Geological Monitoring, bls. 189–204. Boulder, Coloroado: Geological Society of America.

Toomey III, R.S. 2009. Geological monitoring of caves and associated landscapes. Í Young, R. og L. Norby, Geological Monitoring, bls. 27–46. Boulder, Coloroado: Geological Society of America.