Spendýr

Refir og selir hafa mikið aðdráttarafl á ferðmenn sem sækjast eftir að komast í návígi við dýrin til að fylgjast með þeim og ljósmynda. Þetta getur haft áhrif á viðkomu tegundanna og því mikilvægt að vakta þær á viðkvæmum svæðum. Vöktun refa og ferðamanna fer fram við vinsæla gönguleið á Hornströndum. Vöktun sela og ferðamanna fer fram við Ytri Tungu á Snæfellsnesi. Vöktun hagamúsa fer fram í birkiskóglendi á Egilsstöðum, í Heiðmörk og við Dynjanda á Vestfjörðum og í mólendi á Melrakkasléttu.

Refir

Refur, eða melrakki, er eina upprunalega spendýrið hér á landi. Hann er útbreiddur víða umhverfis norðurheimskautið en sjaldséður í Skandinavíu. Tegundin er ekki talin í útrýmingarhættu á heimsvísu en er talin í bráðri hættu í Evrópu, vegna þess hversu fáliðuð hún er í Skandinavíu. Aðeins á Svalbarða og á Íslandi eru sjálfbærir stofnar og ber Ísland ábyrgð á yfir 90% Evrópustofnsins. Refir eru friðaðir á Íslandi samkvæmt lögum nr. 64/1994 en veiðar eru stundaðar á öllum landsvæðum, vegna ákvæðis sömu laga um undanþágu. Mikilvægustu friðlönd refa hérlendis eru Þjórsárver og Hornstrandir en refir eru einnig friðaðir í Þjóðgarðinum Snæfellsjökli. Refagreni í öllum landshlutum eru friðuð á grenjatíma samkvæmt lögum.

Almennt eru refir styggir en á sumum svæðum hefur umferð við refagreni aukist stórlega á undanförnum árum, sérstaklega vegna aukins áhuga ferðamanna á því að sjá refi og yrðlinga og taka myndir af þeim við greni. Mælingar hafa sýnt að því lengur sem fólk dvelur við greni því sjaldnar er yrðlingum sinnt, hvað varðar fæðugjöf og eðlilegt fjölskyldulíf. Jafnframt er óðalsvörnum ábótavant þar sem truflun er mikil á grenjatíma. Afföll yrðlinga eru há þar sem truflun er mikil, bæði vegna fæðuskorts og árása ókunnra refa. 
 

Vöktun refa

Vöktun á ábúð refagrenja og gotstærð er metin með þeim hætti að greni á tilgreindu svæði eru heimsótt á grenjatíma ár hvert (yfirleitt í seinnihluta júní) til að leggja mat á ábúðarhlutfall (fjöldi grenja í ábúð/stærð svæðis í ferkílómetrum). Þar sem ábúð er til staðar er fjöldi yrðlinga skráður til að fá upplýsingar um gotstærð. Til að meta afföll yrðlinga er farið á sama svæði í ágúst og yrðlingar taldir.

Vöktun atferlis refa og ferðamanna við refagreni á grenjatíma fer fram með notkun sjónauka. Fylgst er með grenjum í fimm daga, tólf klukkustundir í senn, meðan læður eru mjólkandi og báðir foreldrar heimsækja greni reglulega. Mældur er fjöldi skipta sem hvort foreldri kemur á greni, með eða án fæðu. Einnig er mældur dvalartími hvors foreldris við grenið og tími sem yrðlingar eru úti við, með eða án foreldris. Samhliða þessu er fylgst með fjölda ferðamanna og skráð hvenær og hversu lengi þeir dvelja við greni og hvað þeir hafast við. Auk handsjónauka er notast við fjarsjá, fjarlægðarmæla og myndavélar.

Hagamýs

Hagamýs hafa nokkra sérstöðu á Íslandi þar sem hún er eina nagdýrategundin sem lifir í náttúru landsins, óháð manninum. Hún er algeng og útbreidd í gróðurlendi og hefur verið á landinu og í nokkrum eyjum í yfir 1100 ár, þó ekki í Vestmannaeyjum fyrr en árið 2019. Á Íslandi lifir hagamúsin á útmörkum útbreiðslusvæðis tegundarinnar til norðurs og vesturs. Rannsókn á hagamúsum á Suðvesturlandi leiddi í ljós að veðurfar að vetri hefur mikið að segja um stofnbreytingar hagamúsa hérlendis. Einnig að mikill breytileiki virðist vera á lífslíkum og þéttleika hagamúsa eftir vistgerðum. Því er líklegt að hagamýs séu hentugir vísar eða mælikvarðar á breytingar innan fæðuvefs og þær svara vel umhverfisbreytingum vegna loftslagsbreytinga. Einnig eru hagamýs mögulegir vektorar fyrir skógarmítla sem jafnframt eru að aukast hérlendis og geta borið hættulega sjúkdóma fyrir fólk. Mjög mikilvægt er að skilja betur þátt hagamúsa í íslensku lífríki og er vöktun stofnsins mikilvægur liður í því.

Vöktun hagamúsa felst í lífveiðum og er lagt mat á þéttleika og samsetningu hagamúsastofna í birkiskógi í þremur landsvæðum, Austurlandi, Vestfjörðum og Suðvesturlandi og í mólendi á Norðausturlandi. Fylgst er með breytileika í þéttleika sem endurspeglar breytingar og samsetningu innan stofnsins og því er um langtímavöktun að ræða. Jafnframt er safnað lífsýnum til að hægt sé að skoða erfðabreytileika, fæðuval og fleira. Vöktunin fer fram á haustin, þegar tímgun er að ljúka og hagamýs af flestum kynslóðum í mestum fjölda.

Selir

Landselur og útselur halda sig við Íslandsstrendur allt árið um kring en báðar tegundir eru á válista spendýra. Landselur er algengasta selategund á Íslandi og er útbreidd um allt land en hún er metin sem tegund í bráðri hættu á válista. Útselur, sem einnig sést í öllum landsfjórðungum, en síst þó á Suður- og Austurlandi, er metinn sem tegund í nokkurri hættu.

Vöktun sela

Talningar á selum á landi er best þekkta leiðin til að fá vísbendingar um breytingar á fjölda sela milli ára. Hafrannsóknastofnun og Selasetur Íslands hafa vaktað seli til fjölda ára og sundurliða vöktunina eftir látrum og árum. Selasetur Íslands hefur stundað rannsóknir á áhrifum ferðamanna og er aðferðafræði þeirra og reynsla nýtt til að útfæra verkefnið á skilgreindum vöktunarsvæðum um allt land. 

Umferð ferðamanna við selalátur og vinsæla hvíldarstaði sela hefur margfaldast á síðustu árum og er líkleg til að valda neikvæðum áhrifum á seli, sérstaklega landsel sem er í bráðri hættu. Talið er í látrum sem eru þekktir viðkomustaðir ferðamanna og þannig fá upplýsingar um tegundina og álagsvaldinn á sama tíma.

Vöktunin felst í stöðluðum talningum sela með tilliti til tíma árs, dags og sjávarfalla. Um leið er skráð umferð, aðgengi og hegðun ferðamanna á viðkomandi svæði (t.d. yfir tilgreint tímabil – dagur/dagar).
 

Heimildir

Berry, R.J. og B.J.K. Tricker 1969. Competition and extinction: the mice of Foula, with notes on those of Fair Isle and St Kilda. Journal of Zoology, 158: 247-265. https://zslpublications.onlinelibrary.wiley.com/doi/abs/10.1111/j.1469-7998.1969.tb02145.x [skoðað 21.2.2024]

Ester Rut Unnsteinsdóttir 2014. Íslenska hagamúsin Apodemus sylvaticus: Stofnbreytingar og takmarkandi þættir á norðurmörkum útbreiðslu. The wood mouse Apodemus sylvaticus in Iceland: Population dynamics and limiting factors at the northern edge of the species’ range. Ritgerð til doktorsprófs. Háskóli Íslands, Verkfræði og náttúruvísindasvið. https://skemman.is/handle/1946/18345 [skoðað 21.2.2024] 

Ester Rut Unnsteinsdóttir 2000. Refir á Hornströndum: áfangaskýrsla um vöktun árið 2019. Náttúrufræðistofnun Íslands, NÍ-20001. Garðabær: Náttúrufræðistofnun Íslands. [skoðað 31.5.2021]

Ester Rut Unnsteinsdóttir 2021. Íslenski melrakkinn – fyrsti hluti. Stofnbreytingar, veiðar og verndun. Náttúrufræðingurinn, 91(3-4): 97-111.

Faustini Aquino, J., G.L. Burns og S.M. Granquist 2021. A responsible framework for managing wildlife watching tourism: The case of seal watching in Iceland. Ocean & Coastal Management 210. https://doi.org/10.1016/j.ocecoaman.2021.105670.

Granquist, S.M. og H. Sigurjónsdóttir 2014. The effect of land based seal watching tourism on the haulout behaviour of harbour seals (Phoca vitulina) in Iceland. Applied Animal Behavour Science 156: 85–93. DOI:10.1016/j.applanim.2014.04.004

Gunnhildur Ingibjörg Georgsdóttir, Erlingur Hauksson, Guðmundur Guðmundsson og Ester Rut Unnsteinsdóttir 2018. Selalátur við strendur Íslands. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar nr. 56. Garðabær: Náttúrufræðistofnun Íslands. [skoðað 31.5.2021]

Menja von Schmalensee og Róbert A. Stefánsson 2020. Vöktun á áhrifum ferðamanna á seli við Ytri Tungu á Snæfellsnesi. Hluti af verkefninu „ Vöktun náttúruverndarsvæða“. Óbirt frumskýrsla.

Náttúrufræðistofnun Íslands 2018. Landselur (Phoca vitulina). [skoðað 31.5.2021]

Náttúrufræðistofnun Íslands 2018. Melrakki (Vulpes lagopus). [skoðað 31.5.2021]

Náttúrufræðistofnun Íslands 2018. Útselur (Halichoerus grypus). [skoðað 31.5.2021]

Náttúrufræðistofnun Íslands 2018. Válisti spendýra. [skoðað 31.5.2021]