Grænt bókhald

Grænt bókhald

Náttúrufræðistofnun Íslands hefur haldið grænt bókhald síðan árið 2011 en með því getur stofnunin fylgst með helstu umhverfisþáttum starfseminnar og leitast við að tryggja að þróun hennar sé jákvæð fyrir umhverfið. Með markvissri færslu græns bókhalds er hægt að gera sér grein fyrir keyptu magni og eðli innkaupa, hvort sem um ræðir vörur eða orku, og þannig er hægt að setja fram markmið um hagræðingu og draga úr neyslu. Gagnsemi græns bókhalds felst einnig í að:

  • koma stefnu umhverfismála á framfæri.
  • safna upplýsingum um þá þætti sem valda neikvæðum umhverfisáhrifum.
  • afla upplýsinga um það sem betur má fara í rekstri.
  • upplýsa starfsfólk.
  • upplýsa almenning um stofnunina.
  • stuðla að betri ímynd í samfélaginu.

Við öll innkaup Náttúrufræðistofnunar Íslands er tekið mið af umhverfisstefnu stofnunarinnar. Það er gert með því að taka tillit til endingar, orkunotkunar og endurnýtingar.

Á undanförnum árum hefur stofnunin minnkað pappírsnotkun til muna og flokkun á úrgangi hefur aukist. Þannig var 75% af öllum úrgangi flokkaður árið 2017, árið 2016 var hlutfallið 68% og árið 2015 62%. Árið 2018 er markmiðið að flokka að minnsta kosti 80% úrgangs.

Pappírsnotkun hefur minnkað til muna. Árið 2015 var hún 13 kg á hvern starfsmann, árið 2016 var hún 9 kg en árið 2017 var hún 6,8 kg. Áfram verður unnið að því að draga úr pappírsnotkun og stefnt er að því að hún verði undir 5 kg árið 2018.

Í grænu bókhaldi er fylgst með kolefnislosun vegna aksturs og flugferða á vegum stofnunarinnar. Reiknuð er út kolefnisjöfnun sem byggir á bindingu kolefnis úr andrúmsloftinu með skógrækt. Heildarlosun CO2 var 0,77 tonn á hvern starfsmann árið 2017 sem er ívið meira en árið á undan.

Stofnunin býður starfsfólki sínu upp á samgöngusamning. Tilgangur hans er að hvetja starfsfólk til að nota vistvænni samgöngumáta til og frá vinnu. Árið 2017 voru gerðir níu heilsárssamgöngusamningar (ganga, hjóla eða strætó).

Rafbíll var keyptur í byrjun árs 2018 og eru frekari rafbílakaup fyrirhuguð. Starfsfólk er mjög ánægt með rafbílinn og er góð nýting á honum. Fljótlega verður sett upp hraðhleðslustöð þar sem margt starfsfólk er að skipta yfir í rafbíla.

Rafmagnsnotkun á stofnuninni lækkar jafnt og þétt milli ára en eitt af markmiðum umhverfisstefnu er minni orkunotkun. Árið 2017 var orkunotkunin 56,1 kw/st á fermetra en árið 2012 66,2 kw/st. Starfsfólk er hvatt til að slökkva ljós á skrifstofum í lok hvers starfsdags.

Á vefnum Vistvæn innkaup er hægt að skoða frammistöðu stofnana sem skila grænu bókhaldi.