Ánamaðkaætt (Lumbricidae)

Almennt

Heimkynni ánamaðkaættar eru fyrst og fremst á norðurhveli. Allmargar tegundir hafa borist þaðan og numið land í öðrum heimshlutum. Í Evrópu eru skráðar 432 tegundir af ættinni og er það mikill meirihluti tegunda af ættbálki jarðorma í álfunni.

Ánamaðkar eru hinir dæmigerðu jarðormar, með langan sívalan bol, afturendi þó stundum nokkuð útflattur, stundum ferhyrndur í þverskurði, átthyrndur eða trapisulaga. Þeir geta orðið afar langir, í okkar heimshluta allt að 20-25 cm en sama tegund getur náð allt að 50 cm annars staðar í heiminum. Á liðum eru fjögur pör af örburstum, mismunandi uppraðað eftir tegundum eða tegundahópum. Beltið þykkt, söðullaga, íhvolft að neðan og gert úr mismörgum fjölda liða eða 4-32 liðum, staðsett aftan við 17-liða framenda. Litur er breytilegur, frá fölum húðlit upp í mun dekkri rauðbláa maðka.

Ánamaðkar lifa í allskyns næringarríkum jarðvegi en mismunandi jarðvegsgerðir henta tegundum misvel, til dæmis hvað sýrustig (ph-gildi) varðar. Ánamaðkar lifa á rotnandi plöntuleifum og örverum í jarðveginum, hraða niðurbroti, losa um jarðveginn með göngum sínum og greiða þannig fyrir flæði súrefnis. Mikilvægi ánamaðka er því augljóst fyrir virkni jarðvegs og frjósemi.

Íslenska ánamaðkafánan er fáskrúðug miðað við nágrannalönd, en aðeins 11 tegundir hafa fundist hér á landi. Tegundafæð verður skýrð með því að dreifing ánamaðka yfir víðfeðmt opið haf er ekki greið og telja má líklegt að ýmsar tegundanna hafi borist til landsins með mönnum allt frá landnámi.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Thank you!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |