Haugáni (Eisenia fetida)

Útbreiðsla

Talinn af palearktískum uppruna en finnst nú á tempruðum svæðum víða um heiminn einkum í tengslum við ræktun og mannabyggð.

Ísland: Nokkrir fundarstaðir á suðvestanverðu landinu, frá Vogum á Reykjanesskaga norður á Mýrar í Borgarfirði.

Lífshættir

Rakasækinn ánamaðkur sem leitar í hrúgur af rotnandi plöntuleifum og skíthauga. Skríður gjarnan inn í húsgrunna gamalla húsa og jafnvel inn í laskaðar skólplagnir. Berst stundum eftir þeim alla leið upp í salernisskálar. Haugáni þrífst vel við lágt sýrustig (pH). Haugánar sem ná að skríða upp í salernisskálar eru vísbending um að lagnir séu farnar að gefa sig. Stundum hafa slíkir ormar valdið tilhæfulausum áhyggjum finnenda af heilsufari sínu!

Almennt

Haugáni er að öllum líkindum tiltölulega sjaldgæfur hér á landi. Hann fannst fyrst við ylrækt í Mosfellssveit 1931. Nokkur óvissa ríkir um tegundina og er lítið um staðfesta fundi fyrr en á allra síðustu árum. Þó eru spurnir og sögur af ánamöðkum sem fundist hafa í salernisskálum í híbýlum á höfuðborgarsvæðinu en slíkum fundum hefur verið lítt fylgt eftir fyrr en á seinni árum. Líkast til hefur þó verið um haugána að ræða. Hann hefur nú verið staðfestur í salernisskálum í Vogum á Vatnsleysuströnd (2007), Hafnarfirði (2008) og Reykjavík (2010). Að auki hafa haugánar fundist á tveim stöðum á Mýrum í Borgarfirði (2006), í súru mýrlendi þar sem sinueldar höfðu geisað í vetrarlok.

Haugáni (3 cm) er tiltölulega væskilslegur ánamaðkur, fölur og tiltölulega gegnsær.

Útbreiðslukort

Heimildir

Backlund, H.O. 1949. Oligochaeta 1. Lumbricidae. Zoology of Iceland IV, Part 20a. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 15 bls.

Sims, R.W. & B.M. Gerard 1985. Earthworms. Synopses of the British Fauna (New Series) 31. The Linnean Society of London. 171 bls.

Höfundur

Erling Ólafsson 6. janúar 2010, 14. nóvember 2013, 2. mars 2017

Biota

Tegund (Species)
Haugáni (Eisenia fetida)