Blóðmítlar (Ixodida)

Almennt

Ættbálkurinn tilheyrir sama yfirættbálki og ránmítlar (Mesostigmata), þ.e. yfirættbálkinum Anactinotrichida. Af blóðmítlum eru 896 tegundir skráðar í heiminum. Þar af finnast 76 tegundir í Evrópu. Í ættbálkinum eru þrjár ættir, stórmítlar (Ixodidae), 702 tegundir, mjúkmítlar (Argasidae), 193 tegundir, og ættin Nuttalliellidae (1 tegund). Sú síðasttalda er bundin löndum syðst í Afríku og er hún afar fjölhæf á hýsla, leggst á allskyns spendýr, fugla, eðlur og jafnvel froskdýr. Aðrir blóðmítlar finnast vítt og breitt um heiminn, einkum þó þar sem rakt er og hlýtt.

Mítlarnir eru flatvaxnir, egglaga eða perulaga. Frumgerðin er talin finnast hjá afrísku ættinni Nuttalliellidae sem einkennist af blönduðum einkennum hinna tveggja, með sköld yfir bolnum að hluta og munnlimi sem liggja undir bolnum. Hinir skiptast í tvær gerðir, annars vegar harða mítla (Ixodidae) með skjöld og munnlimi fram úr haus, hins vegar mjúka mítla (Argassinidae) án skjaldar og með munnlimi undir bolnum. Þeir fyrrnefndu þola að vera kreistir án þess að skaðast en hinir eru öllu viðkvæmari. Þroskaferill er í grófum dráttum eins hjá öllum blóðmítlum, egg, lirfa, gyðla og kynþroska dýr (karldýr og kvendýr). Einn blóðskammt frá hýsli þarf til að ná hamskiptum og færast yfir á næsta þroskastig. Aðeins stórmítlar hafa komið við sögu á Íslandi.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |