Stórmítlaætt (Ixodidae)

Almennt

Á heimsvísu eru þekktar 702 tegundir af stórmítlaætt. Í Evrópu eru 56 tegundir skráðar sem stundum er deilt á tvær aðskildar ættir (Ixodidae og Amblyommidae). Hér er þeim aðskilnaði ekki fylgt.

Stórmítlar eru sníkjudýr útvortis á fjölda tegunda hýsla. Spendýrum, fuglum og skriðdýrum fylgja tegundir stórmítla sem flestir hafa sérhæft sig á kjörhýsla en geta þó nýtt sér mun fleiri kosti ef í nauðir rekur eða eftir þoskastigum. Sumir stórmítlar bera sýkla af ýmsum gerðum í hýsla sína, jafnvel margskonar sýkla hver og einn og geta sumir sýklanna (veirur, gerlar) valdið meinlegum sjúkdómum.

Stórmítlar á öllum þroskastigum hafa yfir bakinu harðan kítínskjöld (scutum) sem hylur bolinn í það minnsta til hálfs þar til mítillinn tekur að sjúga blóð. Þegar mítill hefur sogið nægju sína af blóði hefur bolurinn þanist í margfalda stærð og er skjöldurinn þá bara lítil plata fremst fyrir aftan hausinn. Bæði ungviði og fullorðin dýr hafa sérhæfða munnlimi fram úr hausnum til að stinga á kaf í húð hýsils og sjúga úr honum blóðið. Þeir stinga hýsilinn sársaukalaust og sitja á honum svo lengi sem þarf til að fylla sig blóði. Þá fyrst eru þeir reiðubúnir til að hafa hamskipti og ná næsta þroskastigi. Sumir falla af hýslinum á þessum tímapunkti en aðrir halda sig um kyrrt og losa sig ekki frá hýslinum fyrr en þeir hafa náð kynþroska.

Á Íslandi hafa verið greindar 10 tegundir stórmítla. Þar af eru tvær með vissu landlægar og líklega sú þriðja. Sú fjórða berst hingað á vori hverju með farfuglum og nær að þroskast hér áfram en óvíst er hvort um sé að ræða landlægan stofn. Sex tegundir eru með nokkurri vissu tilfallandi slæðingar.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |