Skógarmítill (Ixodes ricinus)

Skógarmítill - Ixodes ricinus
Mynd: Erling Ólafsson
Skógarmítill, sexfóta ungviði (lirfur). 1 mm. ©EÓ
Skógarmítill - Ixodes ricinus
Mynd: Erling Ólafsson
Skógarmítill, kvendýr. 6 mm. ©EÓ
Skógarmítill - Ixodes ricinus
Mynd: Erling Ólafsson
Skógarmítill, kvendýr útbelgt af blóði. 11 mm. ©EÓ

Útbreiðsla

Evrópa á milli 39° og 65°N frá Portúgal og Írlandi austur til Volgu í Rússlandi og þaðan suður til N-Afríku; Færeyjar.

Ísland: Í safni Náttúrufræðistofnunar eru eintök sem staðfesta allmarga fundarstaði á sunnanverðu landinu, frá Vogum á Reykjanesskaga austur í Hornafjörð, einnig á Patreksfirði, í Skagafirði og á Egilsstöðum. Einnig hafa borist lýsingar á tilvikum sem benda til skógarmítils víðar að en varðveitt eintök eru ekki því til staðfestingar.

Lífshættir

Skógarmítill er blóðsuga á spendýrum sem heldur sig í gróðri, einkum í skógarbotnum. Þegar hann vantar blóð skríður hann upp í gróðurinn og krækir sig við blóðgjafa á leið um. Blóðgjafinn er oftast meðalstórt og stórt spendýr, t.d. hjartardýr eða sauðkind. Ungviði leggst á lítil spendýr, skriðdýr og jarðbundna fugla. Flest önnur spendýr eru líka vel þegin, s.s. hundar og kettir. Lífshættir skógarmítils á Íslandi eru ókannaðir en flestir hafa fundist á mönnum og hundum. Skógarmítlar hafa fundist hér frá því snemma sumars og fram eftir hausti, á tímabilinu 3.6.–1.11.

Almennt

Fyrsti skógarmítill sem fannst hér á landi var tekinn af þúfutittlingi er skotinn var í Surtsey 5. maí 1967, þá nýlentur eftir flug frá vetrarstöðvum í Evrópu. Þar með fékkst staðfesting á því að tegundin gæti borist til landsins með fuglum. Stöku skógarmítlar fóru að finnast af og til eftir þetta og fór þeim að fjölga verulega upp úr aldamótunum, en eftir aldamótin hafa þeir fundist árlega stundum allnokkrir, jafnvel hátt á annan tug dýra á ári. Fundarstöðum fór einnig fjölgandi í öllum landshlutum. Langflest tilvikin hafa þó verið suðvesturhorni landsins. Í einhverjum tilvikum mátti rekja fundina til heimkomu fólks frá útlöndum en í öðrum ekki. Flestir hafa fundist á hundum og köttum eftir útiveru í íslenskri náttúru og allnokkrir á mönnum.

Skógarmítill er að öllum líkindum orðin landlægur. Þó hefur ekki tekist að staðfesta það með því að finna fyrsta þroskastig hans, þ.e. lirfurnar, sem rekja má til íslensks uppruna. Í maí 2009 fundust þó margar lirfur og gyðlur á steindepli sem fannst nýdauður í Reykjavík og væntanlega nýkominn til landsins. Þær höfðu að öllum líkindum borist með honum frá útlandinu. Það þarf ekki að koma á óvart að skógarmítill setjist hér að því útbreiðsla hans er að færast norðar í nágrannalöndum okkar með hlýnandi loftslagi. Í Færeyjum fannst skógarmítill fyrst í maí 2000 en um var að ræða gyðlu sem einnig var á steindepli. Tilfellum hefur fjölgað í Færeyjum síðan.

Skógarmítill er dæmigerður stórmítill, með munnlimi til að grafa ofan í húð, dökkan hálsskjöld og fætur, ljósan afturbol sem þenst út með ólíkindum þegar hann fyllist blóði. Yngsta ungviðið líkist fullorðnum dýrum í sköpulagi en hefur aðeins þrjú pör fóta í stað fjögurra. Skógarmítill er varasamur því hann getur borið alvarlega sýkla í fórnarlömb sín, t.d. bakteríuna Borrelia burgdorferi, sem getur valdið alvarlegum skaða á taugakerfi.

Það er ekki auðvelt að losa mítla úr stungusári með því að toga í þá. Auk þess er óráðlegt að beita slíkri aðferð. Ef tekið er utan um búkinn og hann kreistur geta líkamsvökvar mítilsins sprautast inn um stungusárið og sýklarnir með. Einnig geta munnlimir brotnað af, orðið eftir í sárinu og valdið ígerð.

Á vef landlæknisembættisins eru nánari upplýsingar um Borrelia burgdorferi eða Lyme-sjúkdóminn.

Skógarmítill (Ixodes ricinus) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Skógarmítill (Ixodes ricinus) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Jaenson, T.G.T. & J.-K. Jensen 2007. Records of ticks (Acari, Ixodidae) from the Faroe Islands. Norw. J. Entomol. 54: 11–15.

Jaenson, T.G.T., L. Tälleklint, L. Lundqvist, B. Olsén, J. Chirico & H. Mejlon 1994. Geographical distribution, host associations and vector roles of ticks (Acari: Ixodidae & Argasidae) in Sweden. J. Med. Entomol. 31: 204–256.

Lindroth, C.H., H. Andersson, Högni Böðvarsson & Sigurður H. Richter 1973. Surtsey, Iceland. The Development of a New Fauna, 1963-1970. Terrestrial Invertebrates. Ent. scand. Suppl. 5. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 280 bls.

Piesman, J. & L. Gern 2004. Lyme borreliosis in Europe and North America. Parasitology 129: 191–220.

Sigurður H. Richter, Matthías Eydal, Karl Skírnisson & Erling Ólafsson 2013. Tick spieces (Ixodida) identified in Iceland. Icel. Agric. Sci. 26: 3–10.

Tälleklint, L. & T.G.T. Jaenson 1998. Increasing geographical distribution and density of Ixodes ricinus (Acari: Ixodidae) in central and northern Sweden. J. Med. entomol. 35:521–526.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Thank you!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |