Skemmukönguló (Eratigena atrica)

Útbreiðsla

Palearktísk tegund að uppruna. Gjörvöll Evrópa, Norður-Afríka og austur til Mið-Asíu, innflutt til Norður-Ameríku þar sem hún hefur náð bólfestu.

Ísland: Suðvesturland frá Reykjanesbæ austur á Hvolsvöll og Kirkjubæjarklaustur, Akureyri, Dalvík, Húsavík og Vopnafjörður.

Lífshættir

Skemmukönguló finnst einungis innanhúss hér á landi eins og í nágrannalöndunum, en hún lifir utanhúss á suðlægari slóðum, þó einkum í manngerðu umhverfi, görðum, undir steinum og rusli, í sprungnum trjástofnum o.s.frv.  Hér er hana einna helst að finna í vöruskemmum og á vörulagerum, í tengslum við innflutning og atvinnustarfsemi, mun sjaldnar í heimahúsum, þá einkum í  kjöllurum. Einnig fundin í stórri kartöflugeymslu. Hefur fundist í nokkrum mæli utan við gróðurhús í Hveragerði. Skemmuköngulær finnast í húsum allt árið um kring en fjöldinn verður mestur síðla sumars og að haustlagi. Á þeim tíma finnast kynþroska karldýr í mestum mæli en kynþroska kvendýr sjást hins vegar á öllum árstímum. Skemmukönguló gerir sér trektlaga vef í skúmaskotum sem er ekki límborinn. Ef bráð þvælist inn á vefinn er hún gripin með áhlaupi.

Almennt

Til skamms tíma var skemmuköngulóin hér á landi túlkuð sem þrjár aðskildar tegundir, auk skemmuköngulóar (Tegenaria atrica), farmkönguló (T. duellica) og fraktkönguló (T. saeva). Á þeim mátti greina léttvægan mun í strúktúrum þreifurum karldýranna sem gegna hlurverki við kynmökin og á kynplötu kvendýra á afturbolskviðnum. Stundum hafa þessi meintu tegundaeinkenni reynst óljós og þá verið nær útilokað að gera upp á milli tegundanna. Nýlegar rannsóknir hafa sýnt að þessar þrjár meintu tegundir skuli heyra undir eina og sömu tegund auk átta annarra okkur óviðkomandi hér á Íslandi. Sömu rannsóknir sýndu þar að auki að þessi sameinaða tegund verðskuldaði, ásamt fleirum, að flytjast úr gömlu ættkvíslinni Tegenaria í nýja ættkvísl sem stofnuð var samhliða þessari endurskoðun tegundanna. Eftir þennan gjörning heitir skemmukönguló nú Eratigena atrica (C.L. Koch,1843).

Skemmukönguló var lengstum talin slæðingur til landsins með innfluttum varningi. Elstu eintök skemmuköngulóar sem varðveitt eru í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands fundust í Reykjavík 1978. Upp úr því fóru þessar stóru köngulær að finnast reglubundið og ekki leikur vafi á því lengur að tegundin sé orðin hér föst í sessi. Þó hún sé nú búföst má gera ráð fyrir að stöðugt bætist í stofninn með áframhaldandi innflutningi.

Skemmukönguló  er risastór könguló á okkar mælikvarða. Húsaköngulóin alkunna (Tegenaria domestica) er rétt hálfdrættingur á við hana. Það gefur því auga leið að fáir fagna þessum nýja landnema, en það skal ítrekað að okkur er hún sauðmeinlaus.  Hún er dökkbrún á lit, með ljósbrúnna mynstri bæði á bol og fótum, lappalöng og viðbragðsfljót.

Útbreiðslukort

Myndir

Heimildir

Bolzern, A., D. Burckhardt & A. Hänggi 2013. Phylogeny and taxonomy of European funnel-web spiders of the Tegenaria–Malthonica complax (Araneae: Agelenidae) based upon morphological and molecular data. Zoological Journal of the Linnean Society 168: 723-848.

British Arachnological Society. Tegenaria gigantea saeva. http://wiki.britishspiders.org.uk/index.php5?title=Tegenaria_gigantea_saeva.

Ingi Agnarsson 1996. Íslenskar köngulær. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 31. 175 bls.

Roberts, M.J. 1995.  Collins field guide: Spiders of Britain & Northern Europe. HarperCollins Publishers, London. 383 bls.

Höfundur

Erling Ólafsson 27. janúar 2017.

Biota

Tegund (Species)
Skemmukönguló (Eratigena atrica)