Krosskönguló (Araneus diadematus)

Krosskönguló - Araneus diadematus
Mynd: Erling Ólafsson

Krosskönguló, ljós kerla. 15 mm. ©EÓ

Krosskönguló - Araneus diadematus
Mynd: Erling Ólafsson

Krosskönguló, dökk kerla. 15 mm. ©EÓ

Krosskönguló - Araneus diadematus
Mynd: Erling Ólafsson

Krosskönguló, karldýr. 6 mm. ©EÓ

Krosskönguló - Araneus diadematus
Mynd: Erling Ólafsson

Krosskönguló, kerla við hreiðurhnoðra sinn á gluggakarmi. ©EÓ

Krosskönguló - Araneus diadematus
Mynd: Erling Ólafsson

Krosskönguló, systkinahópur nýskriðinn úr hreiðurhnoðra. ©EÓ

Útbreiðsla

Norðurhvel. Evrópa frá Miðjarðarhafslöndum norður undir arktísk svæði, austur um bóreala belti M- og N-Asíu til Kyrrahafs og Japans; Litla-Asía, Palestína, norðanverð Bandaríkin, Kanada, Nýfundnaland.

Ísland: Láglendi um land allt upp í um 300 m h.y.s., algengust á sunnan- og suðvestanverðu landinu.

Lífshættir

Klettaveggir og hraungjótur í skjólgóðu umhverfi eru kjörlendi krossköngulóar. Hún er hitakær og kýs klettaveggi sem vita mót suðri. Húsveggir í skjólgóðum görðum gegna sama hlutverki. Ungviði skríður út úr hreiðurhnoðra á vorin. Ungarnir litlu halda hópinn í fáeina daga áður en þeir halda hver í sína áttina og finna sér stað til að hreiðra um sig. Þar spinna köngulærnar litlu óreglulega vefi til að byrja með til að afla sér matfanga. Eftir því sem þær stækka verða vefirnir umfangsmeiri, hjóllaga meistaraverk, oft um metri á breidd. Þær ná kynþroska á miðju sumri, júlí–ágúst, kynin makast og kerlan tekur til við að spinna gulan hreiðurhnoðra, vel varinn í sprungu eða glufu í kletti eða húsvegg. Hún verpir eggjum sínum í hnoðrann og heldur vörð um hann langt fram eftir hausti. Karldýrin hverfa fljótlega eftir mökun ef þau þá lifa hana af. Ungviðið klekst úr eggjum á haustin en heldur sig yfirleitt í hreiðurhnoðranum yfir veturinn.

Almennt

Krosskönguló hefur einnig verið kölluð fjallakönguló. Það er vart við hæfi því hún finnst ekki til fjalla. Hún er mjög algeng í byggð og hefur farið fjölgandi á húsveggjum eftir því sem skjól hefur aukist með auknum og vöxtulegri trjágróðri í görðum og um leið gjöfulli fæðulindum. Á höfuðborgarsvæðinu er hún algengust í gamalgrónum hverfum á húsveggjum sem vita móti sól. Hún er heldur illa þokkuð, enda stór og ófrýnileg í augum margra en ekki kunna allir landsmenn að meta nærgöngula granna úr heimi smádýranna. Mörgum er einnig í nöp við stóran vefinn sem gjarnan er um metri í þvermál og veitir góða mótstöðu þegar gengið er í hann en silkiþráður köngulóa er með sterkustu og seigustu efnum sem þekkt eru.

Því verður þó vart neitað að krosskönguló er afar áhugavert dýr. Hún er ötul við veiðar á öðrum smádýrum í görðum. Auk þess er áhugavert að fylgjast með systkinahópum sem birtast á vorin og halda sig í þéttum hnapp um hríð, um 200 saman, áður en leiðir skilja. Þá er fátt eins spennandi og að fylgjast með tilhugalífi kynjanna og þeim lífsháska sem karlinn leggur sig í við að biðla til kræsilegrar kerlu, sem oftar en ekki klófestir hann eftir að hann hefur skilað sínu og leggur hann sér til munns. Hann dvelur dögum saman við vef kvendýrsins og bíður færis á að ná hug hennar. Þess má einnig geta að það er einstaklega fallegt að líta yfir sindrandi klettaveggi Almannagjár síðsumars sindrandi af vefum köngulónna.

Krosskönguló er breytileg á lit. Þær eru misjafnlega dökkar, oftast grábrúnar með einkennandi litmynstri á afturbol sem myndar misgreinilegt krossmark og fætur með áberandi ljósum beltum. Sumar eru mun ljósari, allt að gular á lit. Afturbolur á fullþroska kvendýrum er stór og kúlulaga, um einn cm á lengd og breidd. Karldýrin eru mun nettari á botninn.

Krosskönguló (Araneus diadematus) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Krosskönguló (Araneus diadematus) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Árni Einarsson 1989. Áttfætlur. Pöddur, Rit Landverndar 9: 81–100.

Brændegård, J. 1958. Araneida. Zoology of Iceland III, Part 54. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 113 bls.

Ingi Agnarsson 1996. Íslenskar köngulær. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 31. 175 bls.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |