Grímukönguló (Araneus quadratus)

Grímukönguló - Araneus quadratus
Mynd: Erling Ólafsson
Grímukönguló, kvendýr. 17 mm. ©EÓ
Grímukönguló - Araneus quadratus
Mynd: Erling Ólafsson
Grímukönguló, kvendýr. 17 mm. ©EÓ

Útbreiðsla

Gjörvöll Evrópa en upplýsingar liggja ekki fyrir frá öðrum heimshlutum.

Ísland: Fágætur slæðingur, Hafnarfjörður.

Lífshættir

Í nágrannalöndunum heldur grímukönguló sig í gróðri, nógu styrkum til að bera vef hennar sem er sjaldnast hærra frá jörðu en 1,5 metra, gjarnan í raklendi. Vefurinn er hringlaga allt að 40 cm breiður. Hún þroskast á einu ári frá ungviði, sem skríður úr vefhjúp á vorin eftir að hafa haldið til í honum yfir veturinn, gegnum uppvöxt til kynþroska seinni hluta sumars, þegar mökun fer fram og verpt er í nýjan hreiðurhjúp. Þessi stóra könguló er afar öflug og þarf mikið að éta til að ná vexti sínum fullum á einu sumri. Hún ræður vel við stóra bráð, t.d. býflugur. Grímukönguló er afar frjósöm og kerlan getur verpt allt að 900 eggjum.

Almennt

Grímukönguló hefur einu sinni fundist hér á landi, þ.e. í Hafnarfirði 18. september 2009. Það var stórt, fullvaxið kvendýr sem hafði borist í blómaverslun með plöntum innfluttum frá Hollandi. Í raun þyrfti ekki að koma á óvart þó tegundin myndi nema hér land fyrr eða síðar. Hún á eflaust auðvelt með að berast til landsins með gróðurvörum frá erlendum gróðrarstöðum og gæti örugglega fundið sér kjörlendi í gróðurhúsum eða í gróðurþykkni í umhverfi þeirra. Ef horft er til aðstæðna t.d. í Hveragerði eða Laugarási þá er auðvelt að sjá fyrir sér landnám á slíkum stöðum. Grímukönguló hefur fundist í fáein skipti í Færeyjum, svo hún er greinilega nokkuð á faraldsfæti.

Grímukönguló er mjög áþekk krosskönguló (Araneus diadematus), sem er flestum kunn úr húsagörðum og af húsveggjum hér á landi. Fullvaxin er hún þó mun stærri. Að grunni til er hún gul eða gulgræn á lit með áberandi dökkum beltum á fótum. Ofan á afturbol eru fjórir afgerandi hvítir blettir og lítill svartur díll aftan til í hverjum þeirra þannig að helst minnir á fjögur augu. Kemur því gríma strax upp í hugann. Af því dregur tegundin íslenskt heiti sitt. Fræðiheitið, A. quadratus, er einnig tilvísun til blettanna fjögurra.

Grímukönguló (Araneus quadratus) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Grímukönguló (Araneus quadratus) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

British ArachnologicalSociety. Araneus quadratus. http://wiki.britishspiders.org.uk/index.php5?title=Araneus_quadratus [skoðað 22.9.2011]

Jens-Kjeld Jensen. Araneus quadratus. http://www.jenskjeld.info/DK_side/indexdk.htm [skoðað 22.9.2011]

Roberts, M.J. 1985. The Spiders of Great Britain and Ireland. Volume 1. Atypidae to Theridiosomatidae. Harley Books, Colchester. 229 bls.

Roberts, M.J. 1995. Collins field guide: Spiders of Britain & Northern Europe. HarperCollins Publishers, London. 383 bls.

Wikipedia. Araneus quadratus. http://en.wikipedia.org/wiki/Araneus_quadratus [skoðað 22.9.2011]

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |