Sveipkönguló (Larinioides cornutus)

Sveipkönguló - Larinioides cornutus
Mynd: Erling Ólafsson
Sveipkönguló, kvendýr. 12 mm. ©EÓ

Útbreiðsla

Norðurhvel, í Evrópu frá skógarmörkum í norðri suður til N-Afríku, austur eftir Asíu til Japans; Bandaríkin, Alaska, Kanada, Nýfundnaland, einnig Grænland.

Ísland: Láglendi um land allt, e.t.v. algengari um norðanvert landið en landið sunnanvert, á miðhálendinu við Hvítárvatn.

Lífshættir

Sveipkönguló finnst í gróskumiklum gróðri, hávöxnu grasi, runnum og trjám, einnig í klettum, gjarnan nálægt vatni. Kvendýr gerir vef sinn í gróðrinum og spinnur gjarnan saman strábrúska eða greinar. Það heldur sig þar inni í tiltölulega þéttum spunahjúpnum sem helst minnir á silkiklæði. Hérlendis hafa sveipköngulær fundist kynþroska í júlí og ágúst.

Almennt

Þó sveipkönguló sé nokkuð algeng þá er hún ekki svo ýkja áberandi þar sem hún leynist í gróðurþykkninu. Það er helst að að vefurinn veki á henni athygli, t.d. þar sem hún hefur spunnið saman vænan brúsk af puntstráum eða greinar gróskumikils víðirunna á tjarnarbakka.

Sveipkönguló er áþekk krosskönguló (Araneus diadematus) að sköpulagi en litmynstur hennar er frábrugðið, svo og vefurinn. Hún er mun líkari maurkönguló (Larinioides patagiatus) enda náskyld henni. Sveipkönguló er með brúnan frambol (höfuðbol) en afturbolur er mun ljósari en á ættingjunum, gulur eða gulhvítur með dökku mynstri beggja vegna við ljósa rönd aftur eftir miðju bolsins. Neðan á afturbol eru tveir svigalaga ljósir blettir. Fætur eru rauðleitir eða rauðgulir með dökkum beltum.

Sveipkönguló (Larinioides cornutus) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Sveipkönguló (Larinioides cornutus) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Brændegård, J. 1958. Araneida. Zoology of Iceland III, Part 54. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 113 bls.

Böcher, J. 2001. Insekter og andre smådyr – i Grønlands fjeld og ferskvand. Forlaget Atuagkat, Nuuk. 302 bls.

Ingi Agnarsson 1996. Íslenskar köngulær. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 31. 175 bls.

Roberts, M.J. 1995. Collins field guide: Spiders of Britain & Northern Europe. HarperCollins Publishers, London. 383 bls.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |