Maurkönguló (Larinioides patagiatus)

Maurkönguló - Larinioides patagiatus
Mynd: Erling Ólafsson
Maurkönguló, ungt kvendýr í vef sínum. 6 mm. ©EÓ
Maurkönguló - Larinioides patagiatus
Mynd: Erling Ólafsson
Maurkönguló, ungt kvendýr. 6 mm. ©EÓ

Útbreiðsla

Norðurhvel, í Evrópu frá skógarmörkum í norðri suður til N-Afríku, austur eftir Asíu til Japans; Bandaríkin, Alaska, Kanada, Nýfundnaland, einnig Grænland.

Ísland: Tiltölulega sjaldgæf en fundin í öllum landshlutum, e.t.v. algengari um norðanvert landið en á landinu sunnanverðu, á miðhálendinu í Fróðárdal við Hvítárvatn.

Lífshættir

Maurkönguló finnst í runnum og trjám, einnig í klettum og skriðum, ekki eins hænd að vatni og frænka hennar sveipköngulóin (Larinioides cornutus). Vefurinn er hjóllaga, tengdur milli greina inni í runnum eða utan í þeim eða á milli steina. Hér á landi hafa maurköngulær fundist kynþroska í júlí og ágúst.

Almennt

Maurkönguló er lítt áberandi þar sem lítið er af henni og hún dylst vel í kjörlendi sínu. Auk þess er vefurinn fíngerður og óáberandi, varla nema um hálfur metri í þvermál ef aðstæður leyfa.

Maurkönguló er mjög lík sveipkönguló, þó heldur minni, og er stundum vissara að aðgæta kynfæri til að aðgreina þessar frænkur með vissu. Oftast er afturbolur þó dekkri á maurkönguló og ekki ljós rönd aftur eftir honum miðjum. Miðbakið er að mestu dökkt en ljóst þverbelti sker dökka flekkinn í tvo hluta rétt framan miðju á kvendýrum. Þetta getur þó verið breytilegt. Neðan á afturbol eru tveir svigalaga ljósir blettir eins og á sveipkönguló, og fætur eru sömuleiðis rauðleitir eða rauðgulir með dökkum beltum.

Maurkönguló (Larinioides patagiatus) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Maurkönguló (Larinioides patagiatus) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Brændegård, J. 1958. Araneida. Zoology of Iceland III, Part 54. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 113 bls.

Böcher, J. 2001. Insekter og andre smådyr – i Grønlands fjeld og ferskvand. Forlaget Atuagkat, Nuuk. 302 bls.

Ingi Agnarsson 1996. Íslenskar köngulær. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 31. 175 bls.

Roberts, M.J. 1995. Collins field guide: Spiders of Britain & Northern Europe. HarperCollins Publishers, London. 383 bls.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |