Krabbaköngulóarætt (Thomisidae)

Almennt

Í heiminum eru þekktar 2.155 tegundir í 175 ættkvíslum, alls 182 tegundir eru skráðar í Evrópu í 17 ættkvíslum.

Krabbaköngulær eru sérstakar að gerð og háttum. Fljótt á litið minna þær á dæmigerða krabba, hvernig þær bera sig að með frekar flatvaxinn bol, útstæða fætur, fremri fótapörin tvö lengri en þau aftari og beinast fram á við, því fremsta er haldið uppi þegar setið er um bráð.Auk þess eru þær jafnvígar á gang til allra átta, fram, aftur og til hliðanna, og eru því snöggar að koma sér í var ef styggð ber að.  Þær hremma bráð með framfótunum og halda henni á meðan hún bítur til dauða. Eitrið er fljótt að virka og ræður köngulóin því vel við bráð sem er margfalt stærri. Þó eitrið sé sterkt eru hugsanleg bit mönnum að meinalausu.

Sumar óskyldar köngulær af öðrum ættum líkjast þessu útliti krabbaköngulóa. Krabbaköngulær eru afar fjölbreytilegar á lit, stundum þó að mestu einlitar brúnar, grábrúnar en oft marglitar með skærum litmynstrum. Krabbaköngulær gera sér ekki veiðivef. Þær dauflitu halda sig mest á jörðinni, ráfa um og sitja þar um bráð til að hremma eða halda sig undir föllnu laufi. Þær skærlitu eru gjarnan aðlagaðar litum blóma sem þær hafa valið sér fyrir stað til að sitja um bráð. Þar sitja þær grafkyrrar í launsátri og hremma skordýr sem mæta til að sækja sér afurðir blómanna. Sumar ganga jafnvel svo langt í aðlöguninni að þær skipta litum á fáeinum dögum eftir því sem litur blóma breytist. Sumar jarðbundnar tegundir hafa líka þróað með sér feluliti, til dæmis tegundir sem líkjast fugladriti. Krabbaköngulær spinna silkiþræði sem líflínur og í sambandi við mökunina.

Ein tegund krabbaköngulóa hefur fundist á Íslandi og er hún útbreidd um land allt.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |