Voðköngulóaætt (Linyphiidae)

Almennt

Ættin er sú næst tegundaríkasta í ættbálki köngulóa. Reyndar er hún yfirfull af vandamálum og eru fjölmargar tegundir með vissu enn óuppgötvaðar. Stöðugt er verið að lýsa nýjum tegundum, skipta tegundum upp eða sameina. Á heimsvísu hafa nú yfir 4.300 tegundir verið skilgreindar og þeim skipt í  um 600 ættkvíslir. Í Evrópu eru tegundirnar um 1.355 skráðar í 216 ætkvíslum.

Voðköngulær eru upp til hópa smávaxnar köngulær, sumar agnarsmáar. Þær geta verið einlitar alsvartar, brúnar, rauðar, gular. Stundum með öðruvísi litar lappir, stundum með flekkóttan afturbol. Munur á tegundum er oft svo óverulegur að greiningarvinna getur orðið tímafrek. Skoða þarf samspil ýmissa einkenna, t.d. staðsetningu og fjölda bursta og illgreinanlegra skynhára á fótum, misgreinilega strúktúra í þreifurum karldýra eða kynplötum kvendýra neðan á afturbol. Augum voðköngulóa er breytilega fyrir komið. Karldýr sumra tegunda hafa augun á undarlega formuðum hnúðum eða stilkum á höfuðbolnum.

Voðköngulær finnast hvarvetna og sýna einstaka aðlögun að ólíkum staðháttum. Sumar eru jafnvel í fullu fjöri í snjó og frosti. Lífshættir eru afar breytilegir og fer val á kjörlendum eftir því. Margar eru afar næmar á umhverfisþætti og segja því vel til um ástand lands.

Voðköngulær dreifa sér mjög léttilega á svifþráðum, bæði ungviði og fullþroska dýr. Stundum birtast í miklum fjölda enn daginn og hverfa jafnharðan þann næsta.

Á Íslandi eru skráðar 64 tegundir voðköngulóa, sumar með nokkurri greiningaróvissu. Þær skiptast í 30 ættkvíslir og eru margar þeirra aðeins með eina tegund. Voðköngulær hfa einnig gengið undir heitum eins og dordingull og fiskikarl.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |