Heiðakönguló (Arctosa alpigena)

Heiðakönguló – Arctosa alpigena
Mynd: Erling Ólafsson
Heiðakönguló (Arctosa alpigena). 9 mm. ©EÓ

Útbreiðsla

Norðanvert norðurhvel, Norður-Evrópa og fjallabálkar sunnar í álfunni.

Ísland:  Finnst um land allt.

Lífshættir

Heiðakönguló heldur til jafnt í þurrlendi sem deiglendi, í misþurri mosaþembu, í þurru mólendi og jafnvel á melum. Hún dvelur lengstum inni í vefhólk sem hún spinnur sér ofan í mosanum og stundum finnst hún í fylgsnum undir steinum. Ef hrekst úr fylgsnum sínum má sjá hana taka spretti eftir mosabreiðum. Bæði kynin eru kynþroska allt sumarið. Kynþroska karldýr fara þó fyrr af stað og sjást kvendýr fram á haustið. Ungviði klekst seinnihluta sumars og leggst í vetrardvala.

Almennt

Tegundin er norðræn og er hér algengust á miðhálendinu eða hvarvetna á heiðum uppi, einnig algengari norðanlands en sunnan.

Heiðakönguló (allt að 10 mm) er með stærstu köngulóm hér á landi, kvendýr öllu stærri en karldýr. Hún er áþekk ættingjum sínum en þó jafnan stærri og kröftugri og með sterklegri fætur. Bolurinn er brúnn, dökkbrúnn, rauðbrúnn, oft flikróttur í þessum mismunandi tónum. Frá höfuðbol liggur áberandi ljós taumur aftur á miðjan afturbol. Dökkur höfuðbolurinn með ljósri hæringu einkum að framan og með hliðum. Heiðakönguló hefur sterka bitkjálka og lætur finna fyrir sér ef henni er haldið fastri á milli fingurgóma.

Heiðakönguló – Arctosa alpigena
Heiðakönguló (Arctosa alpigena) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Brændegård, J. 1958. Araneida. Zoology of Iceland III, Part 54. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 113 bls.

Ingi Agnarsson 1996. Íslenskar köngulær. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 31. 175 bls.

Roberts, M.J. 1995.  Collins field guide: Spiders of Britain & Northern Europe. HarperCollins Publishers, London. 383 bls.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |