Hnoðakönguló (Pardosa palustris)

Hnoðakönguló - Pardosa palustris
Mynd: Erling Ólafsson
Hnoðakönguló. 5 mm. ©EÓ

Útbreiðsla

Í mörgum Evrópulöndum, þó einkum í álfunni norðanverðri og fjalllendi landanna sunnar, austur um Síberíu til Kamchatka, einnig Alaska.

Ísland: Algeng um land allt þó mun algengari á láglendi en hálendi.

Lífshættir

Kjörlendi hnoðaköngulóar er helst að finna í þurru mólendi, graslendi og á melum, síður í gróðurþykkni undirgróðurs í skóglendi og í votlendi, þó fræðiheitið palustris mætti benda til þess (þ.e. í mýrum). Fullorðin dýr sjást á hlaupum frá maí og fram á haustið, í mestum mæli þó í júní og júlí, kvendýrin gjarnan lengur og sjást þá oft á spretti með áberandi eggjasekk sinn í eftirdragi allt fram í september. Sekkinn ver móðirin af mikilli ákveðni og lætur hann ekki frá sér ófús. Þegar eggin klekjast skríða ungarnir upp á bak móðurinnar og njóta verndar hennar um hríð eða þar til þeir taka að lifa sjálfstæðu lífi. Á haustin eru unglingar áberandi en þeir liggja í vetrardvala áður en kynþroski næst að vetri liðnum.

Almennt

Hnoðakönguló er flestum kunn ekki síst fyrir spretti sína þegar hún tekur á rás undan berjatínslufólki, kvendýr gjarnan með ljósu eggjasekkina sína en karlarnir sekklausir. Þetta er hin eina sanna „könguló, könguló, vísaðu mér á berjamó“, þó ekki sé réttlátt að ætlast til slíks af henni. Hins vegar er hún einstaklega algeng í berjamónum. Einnig er hún áberandi sökum stærðar sinnar.

Hnoðakönguló á sér náskylda ættingja nauðalíka í útliti. Gjarnan er vitnað til tegundanna allra undir heitinu hnoðakönguló. Þær verða ekki auðveldlega aðgreindar. Þessi tegund hefur reyndar meira áberandi ljósar langrendur á frambolnum en hinar. Athugun á þreifurum karlanna og kynfærum kerlanna kann þó að vera tryggari aðferð við greiningu tegunda.

Hnoðakönguló (Pardosa palustris) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Hnoðakönguló (Pardosa palustris) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Brændegård, J. 1958. Araneida. Zoology of Iceland III, Part 54. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 113 bls.

Ingi Agnarsson 1996. Íslenskar köngulær. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 31. 175 bls.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |