Stökkköngulóaætt (Salticidae)

Almennt

Ættin er tegundaríkasta ætt köngulóa í heiminum. Þekktar eru meira en 5.800 tegundir og yfir 500 ættkvíslir. Þrátt fyrir þennan mikla fjölda eru aðeins 384 þeirra skráðar í Evrópu í 48 ættkvíslum.

Stökkköngulær eru margar agnarsmáar, allt frá 1 upp í 25 mm þær stærstu. Þær þekkjast auðveldlega af sérstöku atferli sínu. Flestar hreyfa sig hægt en geta stökkið mjög langt af mikilli snerpu. Þannig veiða þær bráð. Fætur eru sérstaklega til þessa mótaðir og fæst stökkkrafturinn með vökvaspennu ekki með vöðvum. Fætur  eru að mestu án bursta en hærðir. Fremri fótapörin tvö eru lengri en þau aftari. Köngulóin stekkur með stuttu afturfótunum en hremmir bráð með þeim fremri. Í samspili við þreifara gegna framfætur einnig hlutverki í mökunaratferli til merkjasendinga á milli kynjanna. Stökkköngulær eru margar hverjar afar skrautlegar og dulúðlegar á lit og stundum eru þreifarar af skínandi skærum litum sem stinga í stúf og notast við merkjasendingar.

Hnitmiðuð stökk krefjast góðs sjónskyns. Af öllum liðdýrum þykja stökkköngulær hafa besta sjón. Augnbúnaður þeirra er líka einstakur. Þær hafa fjögur pör augna. Framan á flötum ferköntuðum hausnum er röð af fjórum augum, lítil augu til hliðar en tvö mjög stór á milli þeirra. Uppi á höfuðbolnum eru mjög lítil hliðstæð augu fyrir hliðarsjónskyn og aftar öllu stærri augu sem tryggja sjón aftur á við. Með stóru augunum tveim framan á höfði skynjar köngulóin þrívídd og metur fjarlægð í bráð. Góð sjón og mikill stökkkraftur, einkennir veiðiaðferð köngulónna og athyglisverða biðilsleiki. Þessa kosti nota þær líka til að forðast hættur og stökkva yfir hindranir á veginum.

Stökkköngulær gera ekki veiðivef en spinna öryggislínu þegar þær stökkva. Einnig spinna þær yfir sig tjald þegar illa viðrar eða til að nátta sig undir, einnig yfir eggjasekk og til að hafast við í yfir vetur.

Skökkköngulóin Euphrys omnisuperstes er það dýr sem talið er lifa í mestri hæð á jörðinni en hún hefur fundist í allt að 6.700 metra hæð í hlíðum Mount Everest. Rándýr eins og könguló þurfa að sjálfsögðu bráð en tegund þessi er talin veiða smádýr sem berast til hennar upp í fjallið með vindum. Fræðiheitið er lýsandi, en omnisuperstes merkir einfaldlega hæra en allir aðrir.

Engin tegund hinna áhugaverðu stökkköngulóa lifir hér á landi en stöku sinnum berast slíkar til landsins með innflutningi. Tekist hefur að nafngreina þrjár tegundir en fleiri bíða úrlausnar.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |