Þrúgukönguló (Phidippus johnsoni)

Þrúgukönguló – Phidippus johnsoni
Mynd: Erling Ólafsson

Þrúgukönguló (Phidippus johnsoni), kvendýr. 10 mm. ©EÓ

Þrúgukönguló – Phidippus johnsoni
Mynd: Erling Ólafsson

Þrúgukönguló (Phidippus johnsoni), kvendýr. ©EÓ

Þrúgukönguló – Phidippus johnsoni
Mynd: Erling Ólafsson

Þrúgukönguló (Phidippus johnsoni), ókynþroska. 10 mm. ©EÓ

Þrúgukönguló – Phidippus johnsoni
Mynd: Erling Ólafsson

Þrúgukönguló (Phidippus johnsoni), ókynþroska. ©EÓ

Útbreiðsla

Vestanverð Norður-Ameríka, frá ströndum Kyrrahafs inn á slétturnar miklu, frá Kanada suður til Mexíkó.

Ísland: Reykjavík, Kópavogur, Akranes.

Lífshættir

Tegundin finnst í allskyns þurrlendi allt frá sjávarmáli upp að skógamörkum, til dæmis á sendnum strandhólasvæðum og í eikarskógum. Tegundin gerir sér hólklaga vefhreiður undir steinum og viðardrumbum sem liggja á jörðu. Hún á það einnig til að gera sér slík hreiður í vínberjaklösum. Margar athafnir köngulóarinnar fara fram í  hreiðrinu. Þar heldur hún sig að nóttu til og leitar skjóls þegar illa viðrar, þar eiga hamskiptin sér stað, jafnvel mökunin og þar verpir hún eggjum sínum.  Hreiðrið er hennar heimili. Bráðin er af ýmsu tagi, allt frá smáum skordýrum og upp í hennar eigin stærð. Hún kýs gjarnan aðrar köngulær og kvendýrin kunna að gera eigin karldýr sér að góðu.

Almennt

Þessi athyglisverða könguló hefur fundist hér á landi í fjórgang sem slæðingur frá heimahögum í Norður-Ameríku. Fullþroska kvendýr stökk út úr bananaklasa í verslun í Smáralind í nóvember 2017. Árið eftir fundust þrjú eintök. Í júní fannst ókynþroska þrúgukönguló á Akranesi, í vínberjaklasa sem keyptur var í matvöruverslun þar í bæ. Síðan fundust tvö kvendýr í Reykjavík sinn hvorn daginn í október á heimili og í mötuneyti. Bæði höfðu fylgt nýkeyptum vínberjum.

Þess má til gamans geta að árið 2012 var þrúgukönguló þátttakandi í geimferð á vegum NASA.

Þrúgukönguló (10 mm) er með stærstu stökkköngulóm en tegundir þeirra eru upp til hópa smávaxnar. Hún er einkar glæsileg. Fullorðin dýr og ungviði eru ólík á lit. Fullþroska dýr hafa dökkan höfuðbol með mjóa hvíta rák framan á höfði á milli augna og blágrænna sindrandi kjálka sem köngulærnar sýna óspart þegar þær daðra hver við aðra í mökunardansi. Rákin er ógreinilegri á karldýrum. Á baki er afturbolur hárauður á báðum kynjum, samfelldur rauður á karldýrum. Kvendýr hafa dökka rák eftir miðju baki og ljósa gjörð um rauða skjöldinn sem aðgreinir hann frá dökkum hliðunum neðan til. Mjög hærðir fæturnir eru alsvartir. Ungviði er ljóshært og með gráleitt yfirbragð. Annars er það afar skrautlegt á lit. Á milli kjálka og augna eru ljós og mjórri svört rák. Aftan við fremstu augun er svart belti þá ljóst og síðan rauðgulur kollur. Afturbolur er marglitur á baki, fyrst ljós baugur framan til, innan hans rauðgulur, þá dökkur og loks ljós miðlægur flekkur. Sér til varnar hefur þrúgukönguló þróað með sér litarhaft flauelsvespna af ættkvíslinni Dasymutilla en stungur þeirra eru mjög sársaukafullar. Sjálf er köngulóin ólíkleg til að bíta en hugsanlegt bit er skaðlítið, í mesta lagi sviði og roði.

Þrúgukönguló – Phidippus johnsoni
Þrúgukönguló (Phidippus johnsoni) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Wikipedia. Phidippus johnstoni. (https://en.wikipedia.org/wiki/Phidippus_johnsoni)

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Thank you!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |