Fiðlukönguló (Loxosceles reclusa)

Útbreiðsla

Norður-Ameríka.

Ísland: Reykjavík.

Lífshættir

Fiðluköngulær halda sig í vari, oft í manngerðu umhverfi, til dæmis í kjöllurum, útihúsum, geymslum og skemmum, viðarstöflum og uppsöfnuðu drasli.  Gera sér óreglulegan vef. Kvendýr framleiða nokkra eggjasekki yfir sumartímann með um 50 eggjum í hverjum sekk. Það tekur ungviði ár að þroskast og þær fullorðnu lifa í eitt til tvö ár. Köngulærnar eru harðar af sér, geta þolað langvarandi þurrka og fæðuskort í hálft ár eða lengur. Á mökunartíma á sumrin eiga þær það til að éta hverjar aðra.

Almennt

Fiðluköngulóin er kunnust og nafntoguðust tegunda sinnar ættar og geta bit hennar verið varasöm. Á það einnig við um aðrar skyldar tegundir af ættkvíslinni Loxosceles. Enska heiti fiðluköngulóar, brown recluse, er mörgum kunnuglegt og hugleikið.

Þess skal getið að tegundin er alls ekki árásargjörn og bítur aðeins tilneydd ef henni er þrýst að húð. Slíkt getur gerst þegar fólk klæðir sig í föt eða ber að sér klæði sem köngulær hafa leitað skjóls í. Eitrið er magnað og geta bitin dregið dilka á eftir sér. Langoftast eru áhrifin þó tiltölulega léttvæg en geta verið varasöm og margvísleg. Oftast koma áhrifin fram í húð og fer að gæta skömmu eftir bit, valda sársauka og kláða sem þróast getur í drep í húðfrumum svo ljót sár myndast (necrosis) sem stækka áfram næstu dagana. Einnig getur eitrið dreifist um líkamann og haft áhrif á ýmsa innri líkamsstarfsemi, meðal annars valdið ógleði, uppköstum, hita, vöðva- og liðverkjum, einnig sprengt rauð blóðkorn (hemolysis). Fullfrísku fullorðnu fólki er jafnan lítil hætta búin. Dauðsföll heyra til undantekninga en börnum undir sjö ára aldri og fólki með veikt ónæmiskerfi er mest hætta búin, einnig öldruðum og sjúklingum.

Ekki er óalgengt að útlendar köngulær berist til landsins með varningi. Í raun er merkilegt að fiðlukönguló hafi aðeins fundist hér einu sinni sem slæðingur. Hún barst inn á heimili í Reykjavík í september 2021 falin í rauðum vínberjaklasa sem keyptur var í matvöruverslun. Þegar grannt var skoðað kom í ljós að um var að ræða kvendýr sem hafði spunnið sér vefhjúp inni í berjaklasanum og gætti þar eggjasekks.

Fiðlukönguló (12 mm) er brún, grábrún, ljósbrún með langar lappir sem hún teygir út frá sér þegar hún situr kyrr. Heitið dregur hún af ívið dekkri bletti á baki höfuðbols sem minnir á form fiðlu og liggur fiðluháls aftur úr blettinum.

Útbreiðslukort

Heimildir

Magalhaes, I.L.F., A.D. Brescovit & A.J. Santos 2017. Phylogeny of Sicariidae spiders (Araneae: Haplogynae), with a monograph on Neotropical Sicarius. Zoological Journal of the Linnean Society, 179: 767-864. (Skoða)

Wikipedia. Brown recluse spider. (https://en.wikipedia.org/wiki/Brown_recluse_spider)

Höfundur

Erling Ólafsson, 14. október 2021.

Biota

Tegund (Species)
Fiðlukönguló (Loxosceles reclusa)