Randakönguló (Tetragnatha extensa)

Útbreiðsla

Umhverfis norðurhvel; Evrópa, N-Afríka, austur um Asíu til Kína og Japans, Kanada, Alaska og norðurríki Bandaríkjanna, Grænland.

Ísland: Suðvestanvert landið, frá Fellsströnd í Dölum suður og austur í Landsveit, víða í S-Þingeyjarsýslu og á Fljótsdalshéraði á Austurlandi.

Lífshættir

Randakönguló heldur sig fyrst og fremst í hávöxnum gróðri, runnum, grasi og sefi, gjarnan nálægt vatni. Víðikjarr á vatnsbökkum hentar henni einkar vel. Hún gerir sér tiltölulega einfaldan vef í gróðrinum. Randakönguló finnst kynþroska yfir allt sumarið, maí til ágúst, og ungviði finnst á sama tíma.

Almennt

Randakönguló er tiltölulega staðbundin á landinu en þar sem skilyrði eru kjörin er mikið af henni, t.d. í gulvíðikjarri á bökkum Mývatns. Hún er auðþekkt frá öðrum íslenskum köngulóm af löngum mjóum bol og löngum fótum sem hún teygir langt fram og aftur fyrir bolinn þar sem hún situr t.d. á mjóum greinum eða stráum eða í vef sínum.

Randakönguló er nokkuð breytileg á lit, oftast gulleit eða ljósbrún, með myntugrænt og ljósbrúnt mynstur ofan á afturbol en á neðra borði hans er áberandi randamynstur. Dökk rák er langs eftir bolnum miðjum og gular rákir beggja megin við hana. Karlinn er minni og nettari en kerlan. Við mökun, sem fer fram í vef kerlunnar, hemur hann græðgi lagskonu sinnar með því að halda eitruðum í bitkjálkum hennar föstum með sínum eigin. Fremsta fótapar er einkar langt og teygist fram á við.

Útbreiðslukort

Myndir

Heimildir

Brændegård, J. 1958. Araneida. Zoology of Iceland III, Part 54. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 113 bls.

Böcher, J. 2001. Insekter og andre smådyr – i Grønlands fjeld og ferskvand. Forlaget Atuagkat, Nuuk. 302 bls.

Ingi Agnarsson 1996. Íslenskar köngulær. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 31. 175 bls.

Roberts, M.J. 1995. Collins field guide: Spiders of Britain & Northern Europe. HarperCollins Publishers, London. 383 bls.

Höfundur

Erling Ólafsson 3. febrúar 2010, 11. nóvember 2013.

Biota

Tegund (Species)
Randakönguló (Tetragnatha extensa)