Slútköngulóaætt (Theridiidae)

Almennt

Ættin er tegundarík en yfir 2.200 tegundir eru þekktar sem deilast í yfir 100 ættkvíslir. Í Evrópu eru um 240 tegundir í 50 ættkvíslum.

Í ættinni eru afar mikilvægar tegundir fyrir rannsóknir á ýmsum fræðasviðum. Sennilega er ættin frægust fyrir hinar varasömu, jafnvel baneitruðu, ekkjuköngulær (svartar ekkjur). Eiginleikar eiturs þeirra er einkar áhugavert rannsóknarefni í læknisfræðinni. Silki ekkjuköngulóa hefur einnig verið notað til viðamikilla rannsókna á eiginleikum þess efnis. Þá eru í ættinni tegundir sem lifa í nokkurs konar samfélögum og hafa þær verið mikið til skoðunar. Þarna eru einnig köngulær sem ræna bráð úr vefjum annarra köngulóa og éta jafnvel vef þeirra. Að þessu sögðu má ljóst vera að slútköngulóaætt er í meira lagi áhugaverð.

Köngulær þessarar ættar eru afar breytilegar útlits, sumar grófgerðar aðrar fíngerðar og litir af öllu hugsanlegu tagi og ýmis furðuleg litmynstur koma fyrir. En flestar tegundir hafa kamb úr stuttum krókbeygðum burstum á endalið afturfóta. Kambinn er þó oft erfitt að greina hjá minni tegundunum jafnvel undir smásjá. Fætur eru að mestu án bursta. Höfuðbolur karldýra er stundum afmyndaður í allskyns strúktúra. Slútköngulær spinna afar fjölbreytilega vefi, oft óreglulega límborna þrívíða vefi sem stundum eru miklar vefflækjur.

Hérlendis hafa fundist minnst 10 tegundir af ættinni. Þar af finnast 5 utanhúss, ein í gróðurhúsum og að lágmarki 4 eru slæðingar. Þær eru að öllum líkindum fleiri, sennilega fleiri en ein tegund af ekkjuköngulóm (Latrodectus).

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Thank you!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |