Mynd: Erling Ólafsson
Krabbakönguló, ókynþroska. 5 mm. ©EÓ
Útbreiðsla
Gjörvöll Evrópa og austur um Síberíu, austur fyrir Baikalvatn, og suður til Alsír í N-Afríku; Færeyjar.
Ísland: Algeng á láglendi um land allt, á miðhálendinu í Fróðárdal suðaustan undir Langjökli.
Lífshættir
Krabbakönguló finnst við afar fjölbreytileg skilyrði. Hún er t.d. mjög algeng í skóglendi, kjarri og blómlendi, og reyndar í þurrlendi og deiglendi hvers konar. Hún situr oftast uppi í gróðrinum, gjarnan á blómum þar sem hún bíður bráðar sem leitar í blómin. Heldur sig einnig á jörðinni og dylst oft undir steinum. Kynþroska dýr finnast frá vori til hausts en í mestum fjölda fyrrihluta sumars og fram í júlí. Mest er af ungviðinu síðsumars. Krabbakönguló hremmir bráð sína en veiðir ekki í vef. Hún er kjörkuð og ræðst gjarnan til atlögu við bráð sem er miklu stærri en hún sjálf, t.d. yglur sem eru stór og kröftug fiðrildi. Krabbakönguló spinnur vef í öðrum tilgangi. Eftir mökun þykir kvendýrinu makinn kræsileg máltíð en karlinn hefur komist upp á lag með að tjóðra kerluna með vef sínum til að freista þess að halda henni í skefjum eftir að mökun lýkur. Fullorðnar krabbaköngulær leggjast í vetrardvala.
Almennt
Krabbaköngulær eru stundum í miklum fjölda uppi í gróðri, t.d. í birkiskógum og sjá má þær hrynja niður þegar greinar eru hristar eða hengja sig á föt okkar þegar ruðst er gegnum skóginn.
Krabbakönguló er ólík öðrum íslenskum köngulóm og auðþekkt frá þeim. Hún minnir mjög á krabba í sköpulagi eins og heiti hennar gefur til kynna. Fremri fótapörin tvö eru mun lengri en þau aftari og vita fram og heldur köngulóin þeim gjarnan á lofti í kyrrstöðu þegar bráð er innan seilingar. Þegar styggð kemur að getur krabbakönguló skotið sér undan til allra átta. Hún er stygg og snögg að bregðast við. Litur er breytilegur, gulur, gulbrúnn, brúnn, og þær kynþroska gjarnan með hvítu V-laga mynstri á frambol.
Krabbakönguló (Xysticus cristatus) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Heimildir
Brændegård, J. 1958. Araneida. Zoology of Iceland III, Part 54. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 113 bls.
Guðmundur Halldórsson, Oddur Sigurðsson & Erling Ólafsson 2002. Dulin veröld. Smádýr á Íslandi. Mál og mynd, Reykjavík. 171 bls.
Ingi Agnarsson 1996. Íslenskar köngulær. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 31. 175 bls.
Höfundur
Erling Ólafsson 14. apríl 2010.
Var efnið hjálplegt?
Aftur upp