Fjaðurköngulóarætt (Uloboridae)

Almennt

Þó ættin sé útbreidd nánast um heim allan er hún fáliðuð með 262 tegundum þekktum í 18 ættkvíslum. Í Evrópu eru aðeins 11 tegundir skráðar í 4 ættkvíslum, einungis tvær þeirra í Norður-Evrópu.

Köngulærnar eru smávaxnar og ná sjaldan meira en 12 mm. Þær eru sérstakar fyrir það að hafa ekki eiturkirtla, en þeir hafa þróast burt. Í staðinn deyða þær bráð sína með því að pakka henni þéttingsfast inn í vefsem þær spinna um hana, sprauta síðan yfir hana meltingarvökva til að geta sogið upp næringuna uppleysta. Köngulær þessar spinna veiðivef, flatan, óreglulegan og að sjá klúðurslega spunninn hjólvef, sem er ekki límkenndur heldur mjög úfinn svo bráðin þvælist í honum.

Stelling köngulónna þar sem þær sitja í vef er afar sérstök og þarf jafnvel nokkurt hugmyndaflug til að sjá að þar sitji könguló. Þær líkjast einna helst greinasprotum eða laufblöðum. Langir bognir framfætur teygja sig langt fram fyrir bolinn.

Köngulærnar halda sig oft margar saman í afdrepum, t.d. undir húsum eða klettasyllum eða í holum trjám. Vefir þeirra tengjast þá gjarnan og renna saman.

Í Íslandi er ættina ekki að finna ef undan er skilið tilfelli í gróðurhúsi þar sem upp kom umtalsverður fjöldi einnar tegundar tímabundið.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Thank you!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |